Öskubuskuævintýrið hjá Furman Paladins tók enda í gær þegar liðið tapaði í úrslitaleik SoCon keppninnar fyrir Wofford 64-67, eftir hetjulega baráttu allan tímann. Kristófer Acox meiddist eftir örfáar mínútur af leiktíma.
Kristófer snéri vinstri ökklann snemma í leiknum og fór strax út af til að kanna meiðslin. Hann kom svo inn á aftur skömmu síðar og skoraði eina af sínum þremur körfum, en fann strax að sársaukinn var of mikill til að halda áfram svo hann fór strax út af.
Furman hafði byrjað leikinn gríðarlega vel og leiddu meðal annars 10-7 eftir 14 mínútur þegar Kristófer fór fyrst út af.
Strax og besti varnarmaður og frákastari liðsins fór út af galopnaðist teigurinn fyrir sóknarfráköstum Wofford og skekktist leikskipulag Furman gríðarlega við það. Kristófer hafði varið 2 skot og lokað teignum fram að þessu. Hann lauk leik með 6 stig, 2 varin skot og 1 frákast á aðeins 6 mínútum.
Liðsmenn Furman voru þó ekki á því að gefast upp heldur stigu aðrir leikmenn upp. Þá einna helst fyrsta árs neminn Geoff Beans sem lét rigna frá þriggja stiga línunni þaðan sem hann setti 5/7 í gær og leiddi Paladins í stigaskori með 15 stig.
Furman hleyptu Wofford aldrei meira en 3-5 stigum frá sér en ríkjandi SoCon meistarar Wofford Terriers reyndust sterkari á lokasprettinum og lönduðu sigrinum.
Þetta er 4. SoCon meistaratitill Wofford á 6 árum og jafnframt þeirra annar í röð.
Leikmenn Furman gátu því gengið af velli með höfuð hátt eftir þennan leik, eftir að hafa fyrir það fyrsta komist svona langt úr 10. sæti riðilsins, og einnig fyrir að láta ríkjandi meistara riðilsins hafa verulega mikið fyrir sigrinum, og umfram allt með einn af sínum bestu mönnum á bekknum.
Kristófer var valinn í annað úrvalslið keppninnar eða “SoCon All-Tournament Championship 2nd Team”, en á eftir að fá úr skorið hvort þessi meiðsli eigi eftir að kalla á uppskurð eða einhverja sérstaka endurhæfingu.



