Í Þorlákshöfn í kvöld tókust á heimamenn í Þór og Njarðvíkingar í seinustu umferð deildarkeppninnar. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 9-2 og 22-12 en heimamenn náðu að klóra í bakkann fyrir lok fyrsta leikhluta, en honum lauk 25-21 Njarðvík í vil. Annar leikhluti var nokkuð jafn en Njarðvíkingar sigu örlítið fram úr undir lokin, staðan í hálfleik 46-41 fyrir gestunum.
Í þriðja leikhluta náðu Þórsarar forystunni, 57-56 um miðbik leikhlutans en þeir höfðu 8 stiga forystu fyrir loka fjórðung, 71-63, mikil stemning í herbúðum heimamanna á þessum tímapunkti leiksins. Í loka leikhlutanum mættu Njarðvíkingar ákveðnir til leiks og náðu strax að minnka muninn í 2 stig, Þórsarar settu þá í gír og komust í 9 stiga forystu, Þórsarar misstu þá Odd Ólafsson og Grétar Inga Erlendsson útaf með 5.villur í fjórða leikhluta og þá tóku Njarðvíkingar áhlaup og minnkuðu muninn í 82-84 og margir heimamenn orðnir varir um sig í stúkunni, en þá smellir Tómas þrist fyrir Þórsara og kemur stö’unni í 87-82 og fiskar síðan ruðning hinum megin stuttu seinna, Þórsarar ná svo að sigla leiknum heim. Lokatölur 89-84 fyrir Þór, skemmtilegur leikur að baki.
Besti maður Njarðvíkinga var Stefan Bonneau en hann var duglegur að sækja villur á Þórsara. Tómas var bestur Þórsaranna, Grétar og Nem seigir og Darrin Govens var að spila liðsfélagana vel uppi en var ekki að hitta vel.
Með þessum úrslitum er ljóst að Njarðvíkingar mæta Stjörnunni í úrslitakeppninni og Þórsarar mæta Tindastóli.
Mynd: Tómas Heiðar var bestur Þórsara með 24 stig og 10 fráköst.



