Áður en maður segir til um hverja viðureign þá er mikil spenna í loftinu yfir þessari úrslitakeppni, það mun enginn viðureign verða sópuð og því fáum við fjóra leiki að minnsta kosti í öllum rimmum. Það verður hinsvegar kappsmál þeirra liða sem ætla lengst að klára hverja viðureign í sem fæstum leikjum til að komast hjá álagi en mest getur lið sem verður Íslandsmeistari spilað 15 leiki sem er 68% magn þeirra leikja sem liðin spila allan veturinn. Ég hvet því alla leikmenn til að njóta því að spila þessa og stuðningsfólk til að fylla húsin og styðja liðin sín. Ég vona að þau lið sem ég spái ósigri sýni annað og við fáum frábæra úrslitakeppni sem aldrei fyrr.
KR – Grindavík
KR-ingar fara inní þessa rimmu af mikilli einbeitingu og vilja tryggja heimavöllinn. Óvissan með Pavel truflar KR-ingana ekki neitt en það gæti truflað Grindvíkingana. Það munar öllum liðum um gæða leikmann einsog Pavel og vonum við að hann komist aftur á völlinn sem fyrst. Í báðum liðum eru leikmenn sem vita hvað þarf til að vinna í úrslitakeppni og því verður þessi viðureign algjört stál í stál. KR-ingar munu sýna styrk sinn varnarlega þegar á stóra sviðið verður komið og það mun ríða baggamuninn í þessu einvígi. Ég spái þessu einvígi 3-1 fyrir KR.
Tindastóll – Þór Þorlákshöfn
Tvö lið með ólíkan leikstíl. Þau tóku sitt hvorn leikinn í vetur á sínum heimavelli og tel ég að heimavöllur Tindastóls muni gefa þeim auka vægi í þeim leikjum. Darrell Lewis er lykillinn í leik Stólanna og verður krefjandi verkefni fyrir Þórsara að hafa góðar gætur á honum. Baráttan undir körfunni er Tindastólsmegin og þarf Grétar að eiga stórleiki fyrir Þórsara til að jafna það út. Þetta verður skemmtileg rimma þar sem einsog áður segir mætast tveir ólíkir leikstílar og skák þjálfaranna verður áhugaverð. Ég spái þessu einvígi 3-1 fyrir Tindastól.
Haukar – Keflavík
Bæði lið eru búin með sínar dýfur í vetur og voru þau bæði á uppleið þegar deildarkeppninni lauk. Keflavíkurliðið þarf að fá góða seríu frá Damon Johnson en hann hefur spilað frábærlega á báðum endum vallarins og er eina spurninginn hvort að líkaminn fylgi huganum hjá þessum magnaða spilara. Keflavíkurliðið er veikara inní teig en Haukar og mun þessi viðureign ráðast á hvort Keflavík nái að loka á þann styrkleika Hauka. Bakverðir beggja liða eru snjallir en Haukar eru með fleiri X-factora í sínum herbúðum. Ég spái þessu einvígi 3-1 fyrir Hauka
Njarðvík – Stjarnan
Þessi viðureign er algjörlega 1-X-2 og er ég búinn að tippa á Lengjunni á það. Bæði lið hafa frábæra bakverði og Njarðvíkingar með sína bombu ásamt refnum Loga Gunnars verður skemmtilegt einvígi gegn Justin og Dag Kár. Hvernig þjálfarar liðanna munu nálgast varnarleikinn gegn hvor öðrum verður forvitnilegt að sjá. Bæði lið eiga flotta spilara í stóru stöðunum og vinnusemin á eftir að skipta sköpum í þessum stöðum. Þetta einvígi er algjörlega járn í járn svona fyrirfram og eina einvígið sem fer í oddaleik. Ég spái þessu einvígi 3-2 fyrir Störnuna.
Leikir kvöldsins
| 19-03-2015 19:15 | Úrvalsdeild karla | KR | Grindavík | DHL-höllin | |
| 19-03-2015 19:15 | Úrvalsdeild karla | Njarðvík | Stjarnan | Njarðvík |
.jpg)



