spot_img
HomeFréttirSteve Nash: Goðsögn leggur skóna á hilluna

Steve Nash: Goðsögn leggur skóna á hilluna

Hinn 41 árs gamli snillingur, Steve Nash hefur lagt skóna á hilluna og sagt skilið við körfubolta eftir 19 ár í NBA deildinni.
 
Fæddur í Jóhannesborg í Suður-Afríku 7. febrúar 1974 en ólst upp í Bresku Kólumbíu, Canada. Nash var valinn í nýliðavalinu 1996 (sem af mörgum er talinn besti nýliðaárgangur í sögu NBA) af Phoenix Suns en var skipt 1998 til Dallas Mavericks þar sem hann fór fyrst að láta bera á sér. Hann ásamt Michael Finley og Dirk Nowitzki fór með Dallas Mavericks í úrslit vesturdeildarinnar 2003. 
 
Árið 2004 snéri hann aftur til Phoenix Suns þar sem hann og þjálfarinn Mike D’Antoni breyttu körfuboltanum að mati margra. Run & Gun boltinn sem þeir spiluðu í Phoenix á þessum tíma vakti mikla athygli og áhorf á leik liðsins jókst umtalsvert. Með Suns fór Nash í úrslit vestursins árið 2005.
 
Nash vann MVP nafngiftina árið 2005 og 2006 auk þess að vera næstur á eftir Dirk Nowitzki í valinu 2007. 
 
Árið 2012 var hann sendur til Los Angeles Lakers þar sem hann hefur aðeins náð að spila 65 leiki á þremur tímabilum vegna þrálátra meiðsla.
 
Nash spilaði lengi vel fyrir kanadíska landsliðið í körfubolta og var meðal annars fyrirliði liðsins á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
 
Nash hefur ekki setið aðgerðarlaus á þessum 19 árum sem hann spilaði í NBA deildinni. Hann er þriðji hæsti í sögu deildarinnar í stoðsendingum með 10.335, á eftir Jason Kidd og John Stockton. Nash hefur fimm sinnum leitt deildina í stoðsendingum á heilu tímabili. Nash er einnig með bestu vítanýtingu allra í sögu deildarinnar með 90,4%.
 
Hann er aðalmaðurinn í 50-40-90 klúbbnum en hann hefur skilað inn flestum tímabilum með þá tölfræði, eða 4 alls.
 
Tvímælalaust einn allra besti leikstjórnandi sem uppi hefur verið. Margir leikmenn hafa litið út eins og stórstjörnur með hann að stjórna spilinu. Nash var einnig galdramaður í pick-n-roll sóknarleiknum þar sem hann gat ógnað skotinu fyrir utan og hafði einnig alltaf auga fyrir sendingu á þann sem setti hindrunina þegar hann losnaði.
 
Frábær leikmaður í alla staði.
 
Fréttir
- Auglýsing -