spot_img
HomeFréttirÆgir: Settum stór skot

Ægir: Settum stór skot

Sundsvall Dragons eru komnir í undanúrslit sænsku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á LF Basket í 8-liða úrslitum. Þriðja viðureign liðanna fór fram í dag á heimavelli LF þar sem Sundsvall fór með 67-69 spennusigur af hólmi. Sundsvall mun mæta meisturum Södertalje í undanúrslitum deildarinnar.
 
 
Charles Barton var stigahæstur hjá Sundsvall í kvöld með 17 stig, Hlynur Bæringsson bætti við 14 stigum og 10 fráköstum og þá var Jakob Örn Sigurðarson með 7 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson lék í tæpar 11 mínútur og var með eina stoðsendingu en skoraði ekki og Ragnar Nathanaelsson spilaði ekki sem þýðir að miðherjinn hefur ekkert komið við sögu ennþá í úrslitakeppninni.
 
Haukur Helgi Pálsson leikmaður LF Basket gerði 5 stig í kvöld, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar en hann er nú kominn í sumarfrí ásamt liðsfélögum sínum í LF.
 
„Nei þetta er alls ekki það sem maður bjóst við en þetta voru jafnir leikir á heimavelli LF sem einhvernveginn duttu okkar megin,“ sagði Ægir Þór Steinarsson í samtali við Karfan.is í kvöld. „Við settum stór skot og einnig stór víti í lok leikja. Við tókum einnig stórt skref upp á við í varnarleiknum og sýndum að þegar við erum fókuseraðir og aggressívir varnarlega þá er erfitt að skora á okkur,“ sagði Ægir og nú eru það meistarar Södertalje sem eru næstir á dagskrá.
 
„Þeir eru ótrúlega vel þjálfarið gaurar og það verður erfitt að finna veikleika í þeirra leik en við erum hinsvegar á ótrúlega góðu róli þessa dagana,“ sagði Ægir að vonum sæll með farseðilinn í undanúrslitin.
 
Þá lenti Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2-1 undir í kvöld með Solna Vikings þegar liðið lá 96-84 gegn Boras á útivelli. Sigurður kom af bekknum með 9 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar.
  
Fréttir
- Auglýsing -