spot_img
HomeFréttirHörður Axel og Úlfarnir leggja allt í sölurnar

Hörður Axel og Úlfarnir leggja allt í sölurnar

Hörður Axel Vilhjálmsson og Úlfarnir frá Weißenfels hafa ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Eftir fína rispu fyrir áramót hafa undanfarnir mánuðir ekki gengið nógu vel fyrir þá, en eftir sex tapleiki í röð fara möguleikar á sæti í úrslitakeppninni dvínandi.
 
Hörður sagði í samtali við Karfan.is fyrr í vetur að markmið félagsins hafi verið eitt og sér að halda sér uppi í deildinni og er allt útlit fyrir að því markmiði verði náð þó úrslitakeppnin sé svo gott sem út úr myndinni. 
 
Karfan.is náði tali af honum aftur nú fyrir stuttu og ræddi við hann um leiktíðina og hvað sé framundan.
 
“Ég myndi segja að það sé ekki raunverulegur möguleiki lengur,” sagði Hörður um að ná inn í úrslitakeppnina. “Við erum ekki að ná að loka leikjum. Ég er búinn að vera að spila fínt þó skotin séu ekki að detta.”
 
Hörður Axel er þriðji stigahæsti í liðinu með 9,5 stig í leik og einnig þriðji í stoðsendingum með 2,7 í leik að viðbættum tæplega 2 fráköstum. Hörður hefur spilað næst flestar mínútur í leik í vetur fyrir Úlfana svo það er augljóst að Silvano Poropat, þjálfari liðsins ber fullt traust til okkar manns.
 
Hörður sagði skipulag liðsins miðist núna af upprunalegum áætlunum um að halda sér í deildinni. “Ég var hvíldur í síðasta leik á móti Bamberg (Brose Baskets) sem hafa unnið 16 leiki í röð,” en þetta Bamberg lið situr nú á toppi deildarinnar með 23 sigurleiki og 3 töp. “Þjálfarinn vill að ég verði 100% í leikina sem skipta okkur meira máli.”
 
Úlfarnir eiga eftir 7 leiki í deildinni og verða þeir allir gegn liðum sem Úlfarnir eiga að geta sigraði, að sögn Harðar.  ”5 af þeim unnum við í fyrri umferðinni og hin tvö eru lið sem við hefðum getað tekið líka. Vonandi náum við að klára tímabilið sterkt.”
 
 
Hörður samdi við Úlfana til eins árs og verður því með lausan samning í sumar. Hvað er því í spilunum fyrir þennan magnaða bakvörð á næstu leiktíð?
 
“Ég bara einfaldlega veit ekki hvernig málin standa, í fullri hreinskilni.  Ég er bara með umboðsmanninn minn í þessu sem ég treysti fyrir mínum málum. Ég hef beðið hann að halda mér fyrir utan þessi mál á meðan tímabilið stendur yfir.
 
Hörður segir þó erfitt að einbeita sér að verkefninu þegar svona stutt er eftir af tímabilinu. “Markmiðið er að klára þessa 7 leiki eins sterkt og ég mögulega get og sjá svo hvað kemur upp á borðið. Njóta þess sem eftir er hér og lifa í núinu.”
 
Annað verkefni sem landsliðsmaðurinn Hörður Axel stendur frammi fyrir er þátttaka íslenska landsliðsins í Eurobasket 2015 í september.
 
“Maður reynir að einbeita sér eins og maður getur að tímabilinu hérna og svo þegar það er búið þá getur maður farið að hlakka almennilega til og hugsa um landsliðið og alla þá ótrulegu hluti sem eru að fara að gerast þar.”
 
 
Myndir:  Matthias Kuch.
 
Fréttir
- Auglýsing -