spot_img
HomeFréttirSveigjanlegt ef landsliðsdraumurinn verður að veruleika

Sveigjanlegt ef landsliðsdraumurinn verður að veruleika

Matthías Orri Sigurðarson mun því miður ekki heilla íslenska vallargesti á næstu leiktíð þar sem hann er kominn á skólastyrk hjá Columbus State University í Bandaríkjunum. Karfan.is ræddi við Matthías um vistaskiptin en hann er staddur vestra þessi dægrin hjá kærustu sinni Hugrúnu Elvarsdóttur sem mun leika knattspyrnu við skólann, einnig á skólastyrk. Ef landsliðsdraumur Matthíasar verður að veruleika segir hann skólann mögulega bjóða upp á einhvern sveigjanleika.
 
 
„Ég og kærastan mín ákváðum að reyna að koma okkur fyrir í sama skóla núna fyrir næsta tímabil en hún hefur verið að læra og spila fótbolta síðasta árið í skóla í Flórída. Það var frekar erfitt að finna skóla þar sem við vorum bæði á fullum styrk þannig að þetta tók langan tíma en svo höfðu þeir úr CSU samband og buðu okkur báðum í heimsókn um síðustu helgi. Við ákváðum að slá til enda líst okkur mjög vel á aðstæðurnar og skólann,“ sagði Matthías og gerði ekki lítið úr hve þýðingarmikið þetta væri fyrir sig.
 
„Þetta er frekar stórt að fá fullan styrk í þessum skóla. CSU hafa verið að taka „game ready“ leikmenn seinustu ár sem þýðir einfaldlega að þeir fá mestmegnis fyrstu deildar „transfera“ og „junior college transfera.“ Þetta verður því mikil samkeppni sem er ekkert nema gott. Bæði fótbolta og körfuboltaprógrömmin við skólanna eru og hafa verið sterk seinustu ár og hafa verið að vinna fyrstudeildarskóla grimmt í æfingaleikjum á undirbúningstímabilinu,“ sagði Matthías en CSU leikur í 2. deild háskólaboltans.
 
Matthías hefur áður hafið nám ytra en kom aftur heim. Þá lék hann einnig við skóla sem er í Peach Belt Conference og fær því tækifæri til þess að mæta gamla skólanum sínum.
 
„Já ég var alltaf með það í huga að reyna að fara aftur út. Ég fór of ungur í sterkt prógramm fyrir þremur árum síðan en finnst ég vera tilbúinn núna,“ sagði Matthías sem er væntanlegur aftur til landsins á næstu vikum. Hvað með landsliðssumarið, ef kallið kemur allt gengur eftir gæti Matthías horft framan í sömu vandræði og aðrir háskólanemar, mun skólinn hleypa honum í landsliðsverkefnin?
 
„Ég ætla auðvitað að gera allt sem ég get til þess að fá tækifæri í landsliðinu. Svo á ég að fara aftur út í ágúst en það er sveigjanlegt ef landsliðsdraumurinn verður að veruleika.“
 
Matthías er einn fjölmargra sem mun spreyta sig við sæti í landsliðinu og gæti mögulega þurft að berjast við bróður sinn Jakob Örn leikmann Sundsvall Dragons í viðleitninni til að hljóta náð fyrir augum landsliðsþjálfaranna. Það er svo önnur saga, förum nánar í það í sumar.
  
Mynd/ [email protected] – Bræðurnir Jakob Örn og Matthías Orri árið 2012 í Laugardalshöll
Fréttir
- Auglýsing -