Haukar og Keflavík mætast í fjórða leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppni Dominosdeildar karla í kvöld. Keflavík mun freista þess að loka seríunni í kvöld með sigri en Haukar munu knýja fram oddaleik á Ásvöllum takist þeim að sigra í kvöld.
Leikur Hauka í fyrstu tveimur leikjum seríunnar var furðuslakur og alls ekki sæmandi liði sem lendir í 3. sæti deildarinnar. Þeir hins vegar snéru við blaðinu í þeim þriðja og berjast nú fyrir lífi sínu í kvöld í TM höllinni eða Sláturhúsinu eins og hún er oftast kölluð.
Lykilatriðin að sigrinum í kvöld:
Tapaðir boltar – Haukar töpuðu 15,5 boltum að meðaltali í fyrstu 2 leikjunum á móti aðeins 6 í þeim þriðja. Í sigurleikjum Keflavíkur í vetur hafa andstæðingar þeirra tapað um 20 boltum að meðaltali. 19,7 ef meðaltal síðustu 10 ára er skoðað svo það gefur auga leið að Keflvíkingar nærast að miklu leyti á stífri pressu og töpuðum boltum andstæðinga sinna.
Vítanýting – Keflvíkingar hafa sett Hauka alls 80 sinnum á línuna. Af þeim 80 skotum sem þeir hafa fengið í seríunni hafa þeir nýtt 44 til að skora. Það gefur 36 vítaskot sem hafa farið forgörðum. 36 gefins stig sem þeir hafa hent frá sér. Í fyrstu tveimur leikjunum glötuðust 27 stig á vítalínunni í 46% nýtingu en báðir leikirnir töpuðust með samtals 9 stiga mun.
Fráköst – Haukar hafa tapað frákastabaráttunni í tveimur síðustu leikjum en þó naumlega. Athygli vekur að þeir vinna hana 57-36 í fyrsta leiknum sem tapaðist með 7 stiga mun. Þeir þurfa því að viðhalda þeim krafti sem hefur verið í þeim og ekki gefa sóknarfráköstin eftir. Haukar eiga að vera betra frákastalið.
Hins vegar hvað varðar Keflavík og lykillinn að sigri þeirra í kvöld þurfa þeir að halda því áfram sem þeir hafa verið að gera. Hægja á leiknum og þvinga tapaða bolta. Leikhraðinn hefur verið hægur í seríunni framan af eða 79,1 en Haukum tókst að rífa hann upp í 80,3 í þriðja leiknum. Bæði lið þrífast þó í miðlungs-tempó leikjum.
Leikurinn er í Keflavík í kvöld klukkan 19:15.




