spot_img
HomeFréttirUndanúrslitin hefjast í kvöld!

Undanúrslitin hefjast í kvöld!

Undanúrslit Domino´s-deildar karla hefjast í kvöld en það eru KR og Njarðvík sem hefja fjörið í DHL-Höllinni kl. 19:15. Rétt eins og í 8-liða úrslitum þarf að vinna þrjá leiki til að tryggja sér farseðilinn inn í undanúrslit.

 

KR sópaði Grindavík 3-0 í 8-liða úrslitum en Njarðvíkingar fóru alla leið í oddaleik gegn Stjörnunni eftir kyngimagnaða seríu sem slúttað var með uppseldri Ljónagryfju. 

Liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar þar sem KR hafði 92-78 sigur í október 2014 en í seinni viðureigninni var Stefan Bonneau mættur í lið grænna og það dugði ekki til það sinnið fyrir Njarðvíkinga því KR fór með 76-86 sigur af hólmi í Ljónagryfjunni. 

Eins og þegar hefur komið fram verður Pavel Ermolinskij ekki með í kvöld í liði KR-inga og munar um minna, já það munar um þrennu að meðaltali takk fyrir túkall. Fjarvera Pavels kom þó ekki að sök í 8-liða úrslitum þegar KR fór í gegnum Grindavík. 

Sem fyrr verða KR hamborgararnir á boðstólunum frá kl. 18:00 í DHL-Höllinni og vissara að mæta tímanlega enda Njarðvíkingar ekki þekkir fyrir annað en að fjölmenna á leiki sinna manna síðustu árin.

Fréttir
- Auglýsing -