Duke Blue Devils eru NCAA meistarar í háskólaboltanum eftir 68-63 sigur á Wisconsin Badgers í æsispennandi leik í gærkvöldi.
Gríðarlega jafn leikur í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var jöfn, 31-31. Jahlil Okafor réði lítið við Frank Kaminsky sem kom Okafor í villuvandræði snemma í seinni hálfleik og var lengi á bekknum vegna þessa.
Badger náðu snemma góðri 48-39 forystu í seinni háfleik þar til aðrir nýliðar Duke tóku málin í sínar hendur og snéru dæminu við.
Okafor snéri svo aftur inn á völlinn í stöðunni 56-56 þegar um 3 mínútur voru eftir af leiknum og það gerði gæfumuninn fyrir Duke. Okafor skoraði tvær körfur á þessum mikilvægu augnablikum og tryggði sínum mönnum sigur á ögurstundu.
Tyus Jones leiddi Duke með 23 stig og 5 fráköst og Frank Kaminsky var bestur þeirra rauðklæddu með 21 stig og 12 fráköst.



