spot_img
HomeFréttirFerðaþreyttir Haukar áttu ekki roð í fríska Tindastólsmenn

Ferðaþreyttir Haukar áttu ekki roð í fríska Tindastólsmenn

Haukar fengu það verkefni að takast á við Tindastól á þeirra heimavelli í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Domino's deildar karla. Ærið verkefni þar sem Tindastóll hafa aðeins tapað einum leik þar í vetur. Það var ekki síður ærið verkefni sem beið Tindastólsmönnum eða að gíra sig upp fyrir viðureignina eftir rúmlega viku hvíld frá keppni.

 

Líkt og KR í gær voru Stólarnir seinir af stað. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks eða allt þar til um 5 mínútur voru eftir af 1. hluta. Þá hertu Stólarnir vörnina, lokuðu á Hauka og sóknin fylgdi í kjölfarið.

 

Alex Francis var klippur algerlega út úr aðgerðum Hauka með því að brjóta á honum í hvert skipti sem hann fór upp að körfunni. Hann fór 10 sinnum á línuna í leiknum en hitti aðeins úr einu skoti.

 

Haukar töpuðu 8 boltum í 1. hluta og samtals 13 í fyrri hálfleik og var í raun furða að þeir væru ekki meira undir en 51-34 þegar flautað var til hálfleiks miðað við spilamennsku Hafnfirðinganna.

 

Haukar girtu sig í brók í 3. hluta, settu niður skotin sín og rifu niður fráköstin en mest áberandi Hauka í þeim aðgerðum var Kristinn Jónasson sem kom inn af bekknum og reif niður 7 slík á aðeins 15 mínútum af leiktíma.

 

Haukar höfðu náð að minnka muninn niður í 8 stig eða 66-58 þegar flautað var til loka 3. hluta, en þá höfðu Stólarnir fengið nóg og rammskelltu í lás í vörninni. 

 

Vörn Tindastóls í fjórða hluta var svo rammgirt að Haukum tókst að skora aðeins 6 stig í fjórðungnum. Sóknarnýting þeirra var 18,7% og þeir skoruðu aðeins 0,32 stig per sókn. 

 

Af þeim gögnum sem undirritaður hefur skoðað sem ná aftur til 2005 hefur ekkert lið skorað jafnlítið í einum fjórðung í undanúrslitum úrvalsdeildar.

 

Fátt við leik Tindastóls að athuga en varnarleikur þeirra var til fyrirmyndar, teigurinn algerlega lokaður fyrir allri umferð rauðklæddra svo þeir þurftu að taka skotin fyrir utan sem voru ekki að detta fyrir þá í kvöld.

 

Myron Dempsey var fremstur meðal jafningja hjá Stólunum með 30 stig og 14 fráköst. Darrell Lewis kom þar næstur með 20 stig og 8 fráköst. Pétur Rúnar átti einnig frábæran leik fyrir Stólanna með 5 stig en 13 stoðsendingar og 6 fráköst. 

 

Kári Jónsson og Emil Barja leiddu sína menn í stigaskori með 15 hvor og bætti Kristinn Marinós við 13 stigum. 

 

Haukar verða að hrista af sér hræðsluna við 4 tíma rútuferðirnar norður því þeir verða að stela einum á Sauðárkróki til að komast áfram – það er ekkert flóknara. Slagurinn er tapaður fyrirfram ef menn eru ekki tilbúnir í þessi ferðalög. 

 

Liðin mætast aftur á Ásvöllum á föstudaginn í öðrum leik liðanna í undanúrslitunum.

 

Tölfræði leiks.

 

Mynd:  Myron Dempsey skoraði 30 stig fyrir Tindastól. (Hjalti Árna)

Fréttir
- Auglýsing -