Annar leikur FSu og Hamars um sæti í úrvalsdeild fór fram í Iðu í kvöld. Fyrir leikinn var Hamar með einn sigurleik á FSu og þurfti því aðeins að sigra í kvöld til þess að komast upp.
Ljóst var strax í upphafi að hér var um líf og dauða að tefla. Desibelamælar hefðu sprungið þarna inn, slíkur var hávaðinn í áhorfendum og nágrannakærleikurinn ekki mikill meðal þeirra. Rétt eins og áhorfendur ætlaði hvorugt lið ætlaði að gefa eftir möguleika á sæti í efstu deild.
Hamar náði að stinga af um miðbik 1. hluta og hafði 7 stiga forystu 17-24 eftir fyrsta hluta en barátta og vörn FSu manna veitti Hamri enga vægð í 2. hluta. Skotin voru ekki að detta fyrir utan hjá báðum liðum og því var eina vitið að negla boltanum inn í teig og skora þar. FSu náði að jafna metinn í 40-40 þegar flautað var til hálfleiks.
FSu komu mun beittari inn á völlinn en gestirnir í upphafi seinni hálfleiks. Stórskyttan Ari Gylfason var þó í stífri pössun hjá Sigga Haff og fékk nánast ekki að sjá boltann á tímabili. Aðrir leikmenn FSu stigu þá upp og fylltu það skarð.
Varnarleikur Hamars molnaði niður um miðbik 3. hluta og ekkert vildi ofan í hjá þeim í sókninni. Hamar skoraði ekki stig á 5 mínútna tímabili og á meðan náðu heimamenn 12 stiga forystu.
Hamri tókst illa að bregðast við áhlaupi FSu og tókst ekki að jafna þrátt fyrir harða ásókn í lok leiks.
FSu vörðu forystuna allt til leiksloka og tryggðu sér 74-70 sigur og oddaleik um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Jafnt var stigaskorið hjá leikmönnum þessa leiks og voru alls 10 leikmenn með yfir 10 stig í leiknum, jafnskipt milli liða. Ara Gylfasyni tókst á einhvern hátt að setja niður 16 stig þrátt fyrir að vera með Sigga Haff í brókunum allan leikinn. Hann var svellkaldur á línunni með 8/8 þaðan. Erlendur Stefánsson var einnig drjúgur fyrir heimamenn með 16 stig.
Julian Nelson setti 19 fyrir gestina en tapaði boltanum 6 sinnum. Þorsteinn Gunnlaugsson hamaðist eins og naut í flagi í teignum og skoraði 14 stig, reif niður 15 fráköst (þar af 6 í sókn) auk þess að gefa 5 stoðsendingar. Þorsteinn leiddi alla á vellinum í framlagsstigum með 25.
Oddaleikurinn fer fram í Hveragerði á miðvikudaginn kemur, 15. apríl kl. 19:15 og ljóst að stefnir í sannkallaðan Suðurlandsskjálfta þar sem barist verður til síðasta blóðdropa.
Mynd: Erlendur Stefánsson lék mjög vel fyrir FSu í kvöld. (Tomasz Kolodziejski)



