Tindastóll og Haukar mætast í sínum þriðja undanúrslitaleik í Domino´s-deild karla í kvöld kl. 19:15 í Síkinu. Karfan.is fékk Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar til að rýna í leikinn.
„Miðað við það sem af er í seríunni sýnist mér Stólarnir vera með nokkuð örugg tök á einvíginu. Þeir eru að spila á ofboðslegu tempoi og búið að vera alger unun að horfa á dugnaðinn og orkuna í þeim varnarlega. Þeir virðast komnir ansi langt inn í hausinn á Francis með taktískum villum sem senda hann á vítalínuna. Hann verður að hrista það af sér og alla vega gefa sig í alla hina hlutina fyrir utan skorun sem hann getur gert til að hjálpa liði sínu til sigurs þó ekki gangi allt upp sóknarlega. Ég spái heimasigri í kvöld og að Stólarnir bíði eftir næsta andstæðingi í úrslitum ansi ógnvænlegir og líklegir til frekari afreka.“



