spot_img
HomeFréttirSópurinn aftur inn í skáp á Króknum

Sópurinn aftur inn í skáp á Króknum

Það var allt annað Haukalið sem renndi yfir heiðina og norður á Krókinn í kvöld. Tindastólsmenn voru farnir að munda kústinn og tilbúnir að sópa Haukum út úr þessari seríu eins og rusli gærdagsins. Eins og sært ljón sem króað hefur verið af úti í horni fóru Haukar hins vegar að bíta frá sér, öskra og slá til baka. Haukar ætluðu ekki í frí í kvöld.

 

Haukar blésu á alla gagnrýni um sultuskap og hræðslu við teiginn, ferðaþreytu eða hvað annað sem búið var að stimpla þá með og hreinlega mættu til leiks.

 

Þarna var mætt liðið sem endaði í þriðja sæti deildarinnar. Liðið sem búið er að vera með einn sterkasta "inside-outside" leik deildarinnar. Liðið sem vinnur alla frákastabaráttu. Emil "Þremil" Barja var þar í broddi fylkingar og hreinlega neitaði ljúka tímabilinu þarna á Sauðárkróki, rétt eins og hann gerði í Keflavík í þriðja leik þeirrar rimmu.

 

Þrátt fyrir að lenda strax undir í byrjun, stýrði Emil leik Hauka eins og herforingi og sýndi gott fordæmi með að fara í hvert einasta frákast sem hékk í loftinu. "Frákastabarátta er spurning um viljastyrk" sagði Ívar Ásgrímsson réttilega eftir leikinn í kvöld og skorti hann hvergi hjá Hafnfirðingum í kvöld.

 

Alex Francis barði niður grýluna sem hefur elt hann í þessari úrslitakeppni, réðst að körfunni með offorsi og sýndi enga vægð í vörninni. Hann setti meira að segja niður 4/9 vítum sínum sem er hátíð miðað við það sem við höfum fengið að sjá í úrslitakeppninni frá honum.

 

Tindastólsmenn mættu flatir til leiks, aldrei þessu vant í Síkinu. Eflaust búnir að vinna leikinn í höfðinu og ekki reiðubúnir fyrir þá spilamennsku sem Haukar voru að sýna. Stólarnir hristust stuttu síðar í gang og fóru að spila varnarleik sem er þeim að skapi en Haukar voru ekki á þeim buxunum að hleypa þeim aftur inn í leikinn.

 

Haukar höfðu góða 10 stiga forystu 40-50 þegar flautað var til hálfleiks.

 

Í seinni hálfleik var við því búist að Tindastóll færi að sýna sitt rétt andlit og snúa leiknum við en lengi var bið á því. Langskot fyrir utan þriggja stiga línuna urði æ oftar fyrir valinu frekar en að spila sóknina inni í teignum þar sem þeir hafa alltaf verið sterkastir. 

 

Haukarnir létu ekkert undan. Tóku Stólana alveg út úr öllum sínum aðgerðum með föstum varnarleik og baráttu um fráköstin. Í sókninni hins vegar fékk boltinn að ganga og leitað var að opnu skotunum fyrir utan þegar Francis varð tvídekkaður á blokkinni. 

 

Eins og þruma úr heiðskýru lofti hrökk Haukur Óskarsson í gang og negldi niður hverju risaskotinu á fætur öðru. Hann skoraði öll 17 stigin sín í seinni hálfleik.

 

Tindastóll náði að minnka muninn niður í 9 stig en nær hleyptu Haukar þeim ekki og innsigluðu gríðarlega mikilvægan 79-93 sigur í Síkinu. Haukar eru því annað liðið til að sækja sigur í Síkið í vetur og fyrsta liðið til að afhenda Stólunum tap í úrslitakeppninni.

 

Emil Barja var sem fyrr sagði alger lykilmaður Hauka í leiknum. Skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Alex Francis átti mjög góðan leik og hefur vonandi hrist af sér slenið fyrir komandi leiki. Framlag Hauks Óskarssonar í seinni hálfleik var svo ómetanlegt.

 

Hjá Stólunum var Darrel Lewis drjúgur með 19 stig og 7 fráköst. Myron Dempsey var langt frá sínu best þó hann hafi skorað 17 stig. 

 

Liðin mætast aftur á miðvikudaginn á Ásvöllum kl. 19:15.

Myndasafn – Hjalti Árna

Tölfræði leiks

 

Mynd: Alex Francis treður snemma í leiknum eftir magnaða hreyfingu við endalínuna. (Hjalti Árnason)

Fréttir
- Auglýsing -