Tómas Heiðar Tómasson hefur ákveðið að klæðast hvítu og bláu næsta vetur og leika með bikarmeisturum Stjörnunnar. Tómas er mikill hvalreki fyrir Stjörnuna en hann lék frábærlega með Þór frá Þorlákshöfn síðasta tímabil. Að auki hafa vel flestir lykilmenn liðsins skrifað undir samninga fyrir komandi leiktíð. Þeir leikmenn sem um ræðir eru þeir Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Ágúst Angantýsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sæmundur Valdimarsson, Daði Lár Jónsson, Elías Orri Gíslason, Magnús Bjarki Guðmundsson og Brynjar Magnús Friðriksson.
Aðspurður sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, að Garðbæingar væru í sjöunda himni með nýja leikmanninn: „Það var alltaf á hreinu hjá okkur að þetta væri leikmaðurinn sem okkur langaði að ræða við fyrir næsta tímabil. Tómas er sú týpa af leikmanni og karakter sem við vildum fá inn í samfélagið okkar í Ásgarði og ég tel að hann eigi eftir að passa vel inn í það sem við viljum áorka í Garðabænum jafnt innan sem utan vallar.“
Fyrir utan þennan góða feng hafa Stjörnumenn í raun fest allan sinn kjarna fyrir næsta tímabil að undanskildum þeim Degi Kár Jónssyni, sem heldur til St. Francis háskóla í Bandaríkjunum, og Jóni Orra Kristjánssyni sem hefur í það minnsta lagt úrvalsdeildarskóna á hilluna og flutt búferlum til Akraness.
„Það var eiginlega ljóst strax í klefanum eftir síðasta leikinn móti Njarðvík hvernig þetta yrði. Allir þeir sem mögulega gátu voru strax staðráðnir að bæta fyrir það sem þar gerðist og bæta um betur næsta tímabil. Það er ekki búið að vera mikið átak að festa þennan hóp fyrir næsta tímabil, það stefna allir á sama hlutinn. Það er í mínum huga mjög mikilvægt að ná að halda hópnum tiltölulega óbreyttum og þá sérstaklega að halda ungu strákunum í hópnum. Þeir hafa allir tekið miklum framförum og í raun liggur líklega stærsti möguleikinn til bætingar liðsins í áframhaldandi þróun þeirra sem leikmanna. Nú taka bara við „post season“ æfingar í Spörtu og smá bolti næstu vikurnar, undirbúningur er í raun löngu hafinn fyrir næsta season og æfingaprogramið tilbúið fyrir sumarið og undirbúningstímabilið.“
En verða frekari viðbætur við leikmannahópinn? „Ekki á næstunni, nei. Nú held ég að sé ráðlegast að bíða rólegur til ársþings, sjá hvað gerist þar og halda áfram að bæta hópinn innan frá. Við erum nú komnir með góðan kjarna sem ekki liggur á að bæta miklu í að í flýti“



