spot_img
HomeFréttirRosalegt kvöld í vændum

Rosalegt kvöld í vændum

 

Já spennið beltin! Það er rosalegt kvöld í vændum. Ef Njarðvík-KR eða Haukar-Tindastóll ná ekki að trekkja ykkur upp þá er oddaleikur í Suðurlandsskjálftanum í Hveragerði. Hlaðborðið allt saman á hinum háa herrans tíma 19:15.

 

Í Ljónagryfjunni tekur Njarðvík á móti KR og fjörinu varpað í beina á Stöð 2 Sport. KR leiðir einvígið 2-1 og getur með sigri í kvöld komist í úrslit. Vinni Njarðvík og jafni seríuna verður oddaleikur í DHL-Höllinni. 

Í Schenkerhöllinni taka Haukarnir á móti Tindastól og krókódílarnir úr Síkinu leiða þar 2-1. Stólarnir með sigri í kvöld fara í úrslit annars fáum við oddaleik í Síkinu. Haukar TV verða með þennan í beinni á netinu. 

Frystikistan verður troðfull, það er alveg gefið mál. Mætið tímanlega þegar Hamar og FSu mætast í oddaleik um úrvalsdeildarsætið. Staðan er 1-1 eftir tvo flotta slagi liðanna og í kvöld er allt undir! Þá verður Hamar TV með leikinn í beinni á netinu.

Þetta er ekki kvöldið sem þið þrífið gluggana eða bæsið viðinn á pallinum, nei börnin góð, nú eigið þið stefnumót við körfuboltann. Góða skemmtun!

Njarðvík-KR leikur 4 kl. 19:15 í Ljónagryfjunni
Haukar-Tindastóll leikur 4 kl. 19:15 í Schenkerhöllinni
Hamar-FSu oddaleikur kl. 19:15 í Frystikistunni

Fréttir
- Auglýsing -