spot_img
HomeFréttirFSu upp eftir magnaðan Suðurlandsskjálfta

FSu upp eftir magnaðan Suðurlandsskjálfta

Uppselt í Frystikystunni, sjoppan tæmdist í hálfleik og stemmningin rafmögnuð á pöllunum. Hvergerðingar buðu til glæsilegrar veislu í kvöld með sterkri umgjörð en það voru grannar þeirra frá Selfossi sem böðuðu sig í sviðsljósinu þegar upp var staðið. Oddaleikur Hamars og FSu í kvöld var frábær skemmtun sem lyktaði 93-103 og því verður það lið Fjölbrautaskóla Suðurlands sem leikur í Domino´s-deild karla á næsta tímabili. Suðurlandsskjálftin 2015 var mögnuð skemmtun og myndarleg ný fjöður í hatt beggja liða.

 

Heimamenn í Hamri fengu fljúgandi start og komust í 17-10 eftir að miðherjinn Örn Sigurðarson hafði sett niður tvo þrista með skömmu millibili. Selfyssingar rönkuðu hér við sér undir forystu Collin Pryor og snéru þar taflinu sér í vil. Pryor og Hlynur Hreins keyrðu leikinn upp og það virtist heimamönnum líka illa og gestirnir leiddu 24-25 eftir fyrsta leikhluta. Hratt, skemmtilegt og áhorfendur létu sér vel við líka í stúkunni í óviðjafnanlegri stemmningu. 

Í öðrum leikhluta reyndu Hamarsmenn m.a. fyrir sér í svæðisvörn en Selfyssingar voru í fantagír og byrjuðu 4-0. Örn Sig kom reyndar niður þrist og var þarna 3-3 í þristum, sjálfur miðherjinn. Liðin voru ekkert að slá af bensíngjöfinni og gestirnir viljugir til hlaupanna. Eftir 14 mínútna leik var byssubrandurinn Ari Gylfason ekki búinn að taka eitt skot í leiknum en það átti vitaskuld eftir að breytast. 

Ari skráði sig til leiks þegar 18 mínútur voru af fyrri hálfleik og þá komu þau á færibandi, fimm stiga skvetta hjá Ara og FSu leiddi 46-53 í hálfleik. Ungviðið frá Iðu kunni vel við sig í hröðum leik og heimamenn urðu að enduruppgötva varnarleik sinn í hálfleik ef ekki átti illa að fara. Pryor var með 18 stig í hálfleik hjá FSu og Hlynur Hreinsson 15. Hjá Hamri voru Julian Nelson og Örn Sigurðarson báðir með 13 stig. 

Sama hvað heimamenn í Hamri reyndu þá tókst þeim illa að jafna leikinn, þegar þeir drógust nærri þá svöruðu gestirnir oft með látum, Birkir með þrist 63-72 og Ari með einn stóran undir lok þriðja og breytti stöðunni í 65-77. Collin hafði hægar um sig í síðari hálfleik en þá fóru menn eins og Erlendur Ágúst og Maiecj Klimaszewski að láta til sín taka en sá síðarnefndi átti góðar rispur í kvöld með 9 stig og 6 fráköst. 

Framan af fjórða leikhluta virtist allt stefna í sigur FSu, munurinn fór upp í 15 stig þegar Erlendur Ágúst skellti niður þrist en þeir Örn Sigurðarson og Sigurður Hafþórsson neituðu að gefast upp. Örn var með 32 stig í kvöld og sterkur þegar á reyndi í fjórða þegar heimamenn hófu að saxa á forskotið. 

Hamar gerði vel og náði að minnka muninn í 86-92 og á þessum tíma var Pryor kominn af velli með fimm villur í liði FSu. Munurinn varð á tíma of mikill, of lítill tími fyrir heimamenn til að jafna þrátt fyrir glæsilega endurkomu í fjórða hluta. Þeir hefðu þurft 2-3 mínútur í viðbót og þá hefði maður vart þorað að spyrja að leikslokum. FSu hélt þó sínu striki þar sem bakvarðasveitin Hlynur, Ari og Erlendur fóru mikinn og Pryor auðvitað. Þá lögðu þeir Birkir, Maciej og Svavar Ingi einnig góð lóð á vogarskálarnar.  Lokatölur 93-103.

Hjá Hamri voru þeir Örn Sigurðarson 32/5 og Julian Nelson 31/13 manna bestir en að þessu sinni verða það örlög Hvergerðinga að sitja áfram í 1. deild á meðan grannar þeirra frá Selfossi halda upp í úrvalsdeild.

Tölfræði leiksins

Mynd/ Jón Björn – Fögnuður FSu var ósvikinn í Frystikystunni.

Fréttir
- Auglýsing -