spot_img
HomeFréttirTindastóll veitir KR annað "lúkk"

Tindastóll veitir KR annað “lúkk”

Við fengum Kjartan Atla Kjartansson aðstoðarþjálfara Stjörnuna til að senda okkur nokkrar línur um leik kvöldsins og í raun einvígið í heild sinni.  Þetta hafði Kjartan að segja um málið. 

Fyrst og fremst ber að óska Tindastólsmönnum til hamingju með að vera komnir í úrslitin. Stundum koma ár sem eru einfaldlega ár einhverra liða. Þetta ár hefur verið ár Tindastóls í deildinni. Að mínu mati er það hreinlega skylda okkar sem eru hlutlaus í einvíginu að samgleðjast Stólunum. Tindastóll er vel rekið félag með flotta uppalda stráka innan um reynsluboltana. Að komast í úrslit er frábært afrek og ég er viss um að menn þar eru ekki saddir.

Ég vona líka að fólkið í Vesturbænum kunni að meta afrek sinna manna. Oft er það þannig að þegar vel gengur gleymist hversu mikla vinnu þarf að leggja á sig til að ná árangri. KR-liðið er nú að leika til úrslita í báðum stóru keppnunum og með deildarmeistaratitil. Hjá flestum klúbbum væri það talin flott uppskera.

Leikurinn í kvöld verður, að ég held, svolítið skrýtinn til að byrja með. Við sem fylgjumst með og þeir sem taka þátt erum  öll viðbúin svipuðum spennuleik og KR – Njarðvík var. En ég held að leikurinn nái ekki þeim hæðum og fari svolítið í að liðin þreyfi fyrir sér. Tindastóll veitir KR-ingum allt annað 'lúkk' en Njarðvík gerði. Og Stólarnir hafa ekki spilað gegn jafn massífu liði og KR í þessari úrslitakeppni. Bæði lið koma varkár til leiks. Serían er þannig að engin úrslit koma manni á óvart einhvernveginn. KR gæti unnið, Tindastóll gæti unnið. Allt getur gerst og ég held að allir séu viðbúnir í nokkurnveginn allt.

Eina sem ég bið þó um er að Björn Kristjáns haldi áfram í hetjuhlutverki KR. Fer honum vel enda mikill meistari. Ég get ómögulega spáð fyrir um einhver úrslit. En það kæmi mér ekki á óvart að Tindastóll leiði leikinn lengi vel. Hvernig hann endar verða körfuboltaguðirnir að ákveða. En þetta verður skemmtun. Enda úrslitakeppnin besta sjónvarpsefni sem völ er á og körfuboltinn búinn að sanna sig sem fallegasta íþrótt sem stunduð er hér á landi.

 

Fréttir
- Auglýsing -