spot_img
HomeFréttirNjarðvík Íslandsmeistari í 11. flokki karla

Njarðvík Íslandsmeistari í 11. flokki karla

KR og Njarðvík mættust í 11. flokki karla á þessari stórhelgi í Stykkishólmi. Leikurinn hófst á jöfnum nótum og voru liðin að skora á víxl. Þegar leið á fyrsta hluta voru þó KR piltar ögn á undan og náðu 20-15 forystu og keyrðu hratt á Njarðvík á meðan grænir stilltu upp í agaðri sóknir. KR leystu sín hraðauphlaup með prýði og leiddu eftir fyrsta fjórðung 24-18 en Adam Eiður átti síðasta orðið, þristur fyrir Njarðvík á flautunni.

Njarðvíkingar létu mótlætið aðeins ná til sín í upphafi annars hluta létu það svo fyrir aftan sig, tóku vel á og jöfnuðu 24-24. KR með Þóri og Eyjólf í broddi fylkingar náðu með góðri vörn að slíta sig frá þeim aftur en Njarðvíkurdrengir hittu illa. Með einskærum töffaraskap og góðum þrist kom Adam Eiður Njarðvík nær 38-36 og Gunnlaugur jafnaði 38-38 áður en flautan gall í fyrri hálfleik. Hjá KR voru Eyjólfur og Þórir komnir með 10 stig hvor og í liði Njarðvíkur Adam Eiður með 10 stig og næstir honum Gunnlaugur og Jón Arnór með 8 stig hvor.

Njarðvík komu hreint eldklárir í seinni hálfeikinn og komust í forystu 41-49 og stilltu upp manndrápsvörn. Ekkert var skorað í fjórar mínútur og staðan 48-56 fyrir Njarðvík. En þegar Gabríel Sindri steig á stokk á stóra sviðinu með tvo þrista í röð sem kom grænum í 48-64 þá ætlaði þakið af húsinu og þriðji hluti kláraðist.

Njarðvíkingar voru stífir á 20 stiga forystunni og leiddu 54-74 um miðjan fjórða hluta. Þessu hédlu þeir út leikinn og sigruðu 70-89. Ótrúlega góð liðsframmistaða sem skóp þetta an að öðrum ólöstuðum þá féll viðurkenningin maður leiksins í hlut Jóns Arnórs Sverrissonar sem skartaði massaðri þrennu 15 stig, 15 fráköst og 16 stoðsendingar. Stigahæstur var Gunnlaugur Sveinn með 20 stig og Adam Eiður 18 stig. Hjá KR var Þórir Guðmundsson með 28 stig og Arnór Hermannsson 17 stig.

Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín

Fréttir
- Auglýsing -