Snæfell og Keflavík mætast í sinni þriðju úrslitaviðureign í Domino´s-deild kvenna í kvöld. Snæfell leiðir einvígið 2-0 og hótar sópnum á Keflavík. Ef það verður raunin verður það í þrettánda sinn sem sópurinn fer á loft í úrslitum kvenna.
Frá árinu 1993 hafa tólf einvígi farið 3-0 og af þessum 12 skiptum hefur Keflavík komið tíu sinnum við sögu, sex sinnum hafa Keflvíkingar sópað einvígið en í fjórgang verið sópað á silfurpall.
Kústurinn virðist leika vel í höndum Hólmara sem fóru í sín fyrstu lokaúrslit á síðasta tímabili og lögðu þá Hauka 3-0 en liðið leiðir 2-0 gegn Keflavík núna og getur þar með unnið sinn sjötta leik í röð í lokaúrslitum Íslandsmótsins. Metið í flestum sigrum í röð í lokaúrslitum á Keflavík þegar það sópaði úrslitaeinvígið þrjú ár í röð frá 2003-2005 og vann liðið þá níu leiki í röð í lokaúrslitum.
Sópur á lofti í úrslitum kvenna frá 1993:
1993: Keflavík 3-0 KR
1995: Keflavík 0-3 Breiðablik
1997: KR 0-3 Grindavík
1999: KR 3-0 Keflavík
2001: KR 3-0 Keflavík
2003: Keflavík 3-0 KR
2004: Keflavík 3-0 KR
2005: Keflavík 3-0 Grindavík
2006: Haukar 3-0 Keflavík
2008: Keflavík 3-0 KR
2011: Keflavík 3-0 Njarðvík
2014: Snæfell 3-0 Haukar




