Sara Rún leikmaður Keflvíkur var stigahæst með 31 stig og var ekki á því að gefa neitt eftir gegn Snæfelli í gærkvöldi. Þetta var síðasti leikur hennar í bili með Keflavík og heldur hún vestur um haf á komandi hausti og átti glimmrandi frammistöðu í sínum lokaleik.
„Þetta var mjög svekkjandi, við ætlum að koma hérna og vinna þetta og ætluðum að koma og spila flotta vörn en þær eru bara mjög gott lið. Hildur og Kristen eru mjög góðar og það er bara mjög erfitt að stoppa kanann þeirra, hún er virkilega góð. Hildi og Gunnhildi er erfitt að stoppa einnig. Mér finnst í þessum þremur leikjum það hafa verið erfitt að stoppa skotin þeirra sem eru alveg að smella. Ég ætlaði mér að vinna þetta og tók þessi skot mín og þau duttu vel þó ég sé ekki beint skytta.“
Aðspurð um flutningin til Ameríku þar sem hún hittir fyrir Margréti Rósu og mun spila með henni.
„Þetta er bara draumur að rætast sem ég hef verið að stefna að lengi og virkilega ánægð með að það skuli vera í höfn. Við [Margrét Rósa] erum góðar vinkonur og er ég ótrúlega spennt að spila með henni og hinum stelpunum í liðinu. Ég fór þarna til þeirra í heimsókn og er alveg ótrúlega spennt.“



