Körfuknattleiksþing KKÍ fer fram dagana 8.- 9. maí næstkomandi. Fyrir þinginu liggja þónokkrar tillögur og eins og flestir hefðu getað gert sér í hugarlund er þar að finna tillögur, sem fyrri þing, um breytingar í málefnum erlendra leikmanna. Mál sem hefur verið tekið fyrir á þingum svo lengi sem elstu menn muna.
Áður en við kíkjum eldsnöggt á tillögurnar þá kemur fram í ársreikningi KKÍ fyrir árið 2014 hafði sambandið rúmar átta milljónir króna í tekjur umfram gjöld sem er um sex milljónum króna betri afkoma en á árinu 2013. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 má svo sjá að áætlaður hagnaður af rekstri sambandsins nemi rúmum þremur milljónum króna og því á árunum 2014 og 2015 gert ráð fyrir samtals næstum tólf milljón króna rekstrarhagnaði.
Að tillögunum (ekki er hverri tillögu gerð skil, aðeins hluta þeirra):
– Körfuknattleiksdeild Hattar leggur til breytingu á hinni margfrægu 18. grein í reglugerð KKÍ um körfuknattleiksmót. Leggja Hattarmenn til að í úrvalsdeild karla skuli alltaf vera a.m.k. 3 íslenskir ríkisborgarar á leikvelli og aldrei fleiri en tveir erlendir leikmenn. Í fljótu máli útleggst þetta þannig að 4+1 reglan eins og rætt hefur verið um verði að 3+2 reglu. Í greinargerð tillögunnar hjá Hetti segir m.a. að tillagan stuðli að því að jafna aðstöðumun liða á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæði. Keflavík tekur í svipaðan streng og KFÍ bætir við greinargerð í sinni tillögu sem unnin var fyrir félagið árið 2014 um frjálst flæði vinnuafls.
– Körfuknattleiksdeild Breiðabliks leggur til að úrvalsdeild kvenna verði skipuð 10 liðum en ekki átta eins og segir í núverandi reglugerð. Eins leggja Blikar það til að leiki verði tvöföld umferð í 10 liða deild sem þýðir að deildarleikjum muni fækka úr núverandi fyrirkomulagi sem er 28 leikir í 18 eða fækkun um 10 umferðir í efstu deild kvenna.
– Ein tillagan skerpir á orðalagi reglugerðarinnar um venslasamninga með það að augnamiði að endurspegla tilgang þeirrar reglugerðar og taka af allan vafa í greinum sem voru ekki nægilega skýrar. Tillagan á m.a. að taka af allan vafa um hvernig reikna eigi út sjö mínútuhæstu leikmenn hjá móðurfélagi, mál af þessu tagi varð einmitt kærumál millum Njarðvíkur og Stjörnunnar í 1. deild kvenna á nýafstöðnu tímabili.
– Lagt er til að fyrirtækjabikar karla og kvenna verði lagður niður, ástæaðn sem kemur fram í greinargerð með tillögunni er dvínandi áhugi fyrir keppninni.
– Í stjórnartillögu KKÍ kemur fram breyting á fulltrúafjölda aðila á körfuknattleiksþingi. Helsta breyting verði þá að tala virkra körfuknattleiksiðkenda innan félaga ákvarði þá ekki þingfulltrúafjölda heldur ákvarðast fulltrúafjöldi út frá liðum sem taka þátt í mótum KKÍ á þingári.
– Í stjórnartillögu er lagt til að nefndarmönnum í afreksnefnd skuli fjölgað úr fimm í sjö.
– Fjölga á þeim mótum sem rafræn tölfræði er tekin og nú á að bætast við 1. deild kvenna.
Það verður því úr nægu að moða fyrir þingfulltrúa og á meðan bíður hreyfingin og sér hvað verður lagt fyrir hana á næsta tímabili. Allar tillögur sem og ársreikning KKÍ 2014 má nálgast hér.



