spot_img
HomeFréttirAðsent: Að taka „rétta ákvörðun“

Aðsent: Að taka „rétta ákvörðun“

Jæja, annað þing, önnur umræða um útlendingaregluna. Ef gerð yrði bíómynd úr þessari umræðu héti hún Síbyljan returns. 

 

En já, þetta er umræða sem þarf að taka og hér eru nokkur orð í þennan gríðarstóra belg. Mín von er að við nálgumst málefnið hlutlægt og veltum upp öllum steinum áður en við tökum ákvörðun. Vil kannski byrja á að segja að mér finnst alls ekki hægt að taka einhverja ákvörðun sem bindur komandi þing, en maður heyrir marga kalla eftir einhverri reglu til fimm ára (meira um það síðar). Slíkt er mjög erfitt í framkvæmd og ég held að við í nútíðinni eigum ekki að geta bundið fólkið þarna í framtíðinni, sem verður kannski komið með nýjar og betri upplýsingar. Því í framtíðinni gætu aðstæður breyst.

 

Byrjum á byrjuninni
Fyrir síðasta þing var 4+1 reglan samþykkt með naumum meirihluta. Tveimur atkvæðum munaði. Ég ákvað að sitja hjá, þar sem ég var enn að spila og fannst ég ekki vera í aðstöðu til að taka ákvörðun um málið. Hafði ekki sterka skoðun á þessu og vildi leyfa öðrum að hafa áhrif. Verandi með umboð hafði ég tvö atkvæði og ef ég hefði kosið eins og restin af fulltrúum Stjörnunnar værum við í 3+2 ennþá. 

 

Semsagt, 4+1 reglan hefur nú verið í tvö ár. Og hvernig hefur okkur gengið eftir að þessi regla var samþykkt? Tja, það er varla hægt að svara því. Vegna þess að nú eru einungis tvö ár síðan hún var samþykkt. Og líklega er það mergur málsins; við getum varla myndað okkur skoðun á þessari reglu því reynslan er ekki nægileg. Við höfum leikið tvö leiktímabil og erum ennþá að aðlagast þessari reglu.

 

Regla sem lifir
Maður sér marga stíga fram á ritvöllinn og hefur rætt við ógrynni af fólki með skoðun á þessu. Eitt hefur mér þótt fyndið að sjá og heyra: Þeir sem tala fyrir einhverri „lausn“ í málinu vilja að reglan sem verði samþykkt á þinginu verði til nokkurra ára. Og að ekki verði breytt aftur á næsta þingi. En ég spyr á móti: Af hverju má núverandi regla í útlendingamálum ekki fá nokkur ár? Það er eins og einunigs regla þeirra sem vilja breytingu eigi að fá að lifa lengur. 

 

Tvö leiktímabil eru ekki langur tími. Við hljótum öll að geta verið sammála um að mengi upplýsinga er ekki nógu gott. Í skólum landsins er leitast við að kenna nemendum vísindalegan þankagang. Að nálgast hlutina hlutlægt. Að skoða þær upplýsingar sem liggja fyrir.

 

Til þess að taka rétta ákvörðun þarf maður að hafa nægt magn upplýsinga. Og þessi tvö leiktímabil hafa í raun ekki sagt okkur neitt um hvort að 4+1 reglan virki eða ekki. Í umræðunni um að setja reglu í útlendingamálum sem lifir má alveg velta því upp að núverandi regla hefur verið í gildi í tvö ár. Er ekki kjörið að leyfa henni að lifa annað þing og skoða málin þá? Þegar menn kalla eftir fimm ára lausn mega þeir alveg horfa á þessa reglu og leyfa henni að vera allavega í fjögur ár.

 

Kostirnir eru þessir:

1. Á næsta þingi getum við tekið ákvörðun með enn meira magn upplýsinga til glöggvunnar. 

2. Við vitum að körfuboltinn hefur haldið áfram að vaxa eftir að reglan var samþykkt. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að íþróttinn verði á undanhaldi næstu tvö árin.

3. Ef reglunni verður leyft að lifa geta liðin haldið áfram að vinna út frá því umhverfi sem hefur skapast á þessum tveimur árum.

4. Leikmenn sem hafa vaxið í þessu umhverfi í kjölfar fleiri mínútna geta haldið áfram að vaxa og dafna. Margir leikmenn hafa stigið upp og tekið leik sinn „á næsta level“. 

 

Sjö punktar sem þurfa að vera í umræðunni:
1.    Þegar 4+1 reglan var samþykkt höfðu einhverjir á orði að körfubolti á landsbyggðinni myndi leggjast af. Slík umræða er okkur aldrei til tekna, að stilla þessu upp í SV-horn gegn landsbyggðinni. 

 

Við skulum hafa í huga að engin regla getur útrýmt okkar fallegu og skemmtilegu íþrótt. 

 

En síðan þessi regla var samþykkt hefur þetta gerst: Snæfell hefur orðið Íslandsmeistari bæði árin í kvennaboltanum og deildarmeistari seinna árið. Tindastóll fór upp um deild fyrra árið og komst í úrslitin seinna árið. Höttur komst upp í úrvalsdeild og ÍA, FSu og Hamar voru í úrslitakeppni 1. deildar. 

 

Vissulega var Tindastóll með tvo leikmenn sem fæddust í Bandaríkjunum. En samt sem áður náði liðið þessum markverða árangri. Og allt starfið hefur blómstrað þar. 

 

Jú á móti hafa lið á landsbyggðinni og gengið illa. Skallagrímur féll úr úrvalsdeild og Þór og KFÍ gekk ekki vel á tímabilinu sem var að líða. En við skulum ekki gleyma því að það er engin skömm að það gangi ekki alltaf vel. Það má alveg ganga illa og það er ekki einhver ein regla sem á að geta gert alla samkeppnishæfa. Lið féllu líka í 3+2 og lið féllu líka þegar bosman-leikmenn voru frjálsir.

 

2.    Sjálfur spilaði ég á meðan allar þessar reglur voru í gildi; Frjálst flæði bosman-leikmanna, 3+2 og 4+1. Við í Stjörnunni fórum í úrslitakeppnina á meðan hver og ein af þessum reglum var í gildi. Og ég gat ekki betur séð en að áhuginn hafi jafnvel verið mestur í ár. Meiri en hann var í 3+2. En kannski er það bara hjá okkur í Stjörnunni. Reyndar held ég að engin regla auki áhuga á íþróttinni eitthvað sérstaklega. Það eru bara leikmennirnir og sú umgjörð sem skapast. En maður myndir svona ætla að því fleiri heimamenn sem eru að spila, því fleiri kæmu á völlinn.

 

Relatíft er íslenskur körfubolti ekkert sérlega góður á heimsvísu. Í kringum okkur eru betri deildir. Við hljótum að geta viðurkennt það. Þannig að fólkið er ekki að koma á völlinn til þess að sjá tilþrifin. Það er að mæta til þess að upplifa spennuna og sjá liðið sitt keppa. Oft eru áhorfendur með tengsl við leikmenn á einn eða annan hátt.

 

Einn góður maður sagði við mig: „Á meðan leikurinn skiptir máli fyrir leikmenn, dómara og þjálfa, skiptir hann líka máli fyrir áhorfendur.“ Þetta finnst mér mjög skemmtileg nálgun.

 

3.    Maður hefur heyrt spurninguna hvort að við getum haldið úti tólf liða deild með 4+1 reglunni og einhverjir efast um það. Finnst okkur það virkilega? Stendur íslenskur körfubolti virkilega á slíkum brauðfótum að við þurfum tólf erlenda leikmenn til viðbótar til þess að geta haldið úti tólf liða deild? 
Ef það er staðreyndin þá erum við í talsverðum vandræðum. Og ættum að fókusa á aðra hluti en þessa reglu til að bjarga okkur.

 

4.    Talandi um aðra hluti til að bjarga okkur, þá eru miklu fleiri hlutir til umræðu en útlendingamálin. Fyrir tilvonandi þingi liggja extensífar breytingatillögur á fyrirkomulagi í yngri flokkunum. Ég vona að við gefum þeirri umræðu jafn mikinn gaum og útlendingareglunni; Að við hugsum til lengri tíma en bara til næsta tímabils. Því breytingar á fyrirkomulaginu eru miklu betur til þess fallnar að taka íslenskan körfubolta á „næsta level“. Miklu frekar en breytingar á útlendingareglum.

 

5.    Fyrir liggja tillögur að breyttu fyrirkomulagi með erlenda leikmenn í úrvalsdeild. Einhverjir leggja til 3+2 og vilja þar með tvo bandaríska leikmenn. Þegar sú regla var síðast í gildi kaus meirihluti þings gegn henni og með 4+1. Ástæðan var sú að mönnum þóttu íslenskir leikmenn ekki fá nægileg tækifæri í þessari hálfatvinnumannadeild. Menn vildu frekar gefa ungum íslenskum leikmönnum tækifæri á mínútum og gera þá verðmætari, þannig að þeir gætu jafnvel unnið hálfan dag og æft hálfan dag. Eða eitthvað í þá áttina.

 

Hvað hefur breyst síðan þá? Voðalega lítið, held ég. Við höfum sent unga stráka og stelpur út í háskóla í tonnavís og höfum líklega aldrei átt eins marga D1-leikmenn. Við komumst líka á Eurobasket í fyrsta sinn, þannig að það má segja að íslenskur körfubolti sé í uppsveiflu.

 

Síðast, þegar 3+2 reglan var í gildi, voru flest liðin með bandarískan leikstjórnanda og bandarískan miðherja. Þetta eru mikilvægar stöður fyrir okkur. Ég held að allir séu sammála um það. Allavega, þetta þótti ekki ganga og þótti ekki íslenskum körfubolta til framdráttar.

 

6.    Önnur tillaga er 3+2 og að annar erlendu leikmannanna verði að vera frá löndum innan EES. Gott og blessað; þetta er einhverskonar útgáfa af hegelískri díalektík. Einhver lending í málinu.
Rökin fyrir þessari reglu eru þau að þetta geri einhver liðin í deildinni (sem eru ekki með sama kjarna af íslenskum leikmönnum) samkeppnishæfari. Maður getur vissulega séð þau rök. Þessi regla er sögð eiga að auka gæði deildarinnar.

 

En allir sem hafa starfað í körfuknattleikshreyfingunni vita að þessir svokölluðu bosman-leikmenn eru dýrari en bandarískir leikmenn. Framboð af sterkum bosman-leikmönnum er minna en framboðið af sterkum bandarískum leikmönnum. Og markaðsöflin tryggja þessum bosman-leikmönnum meira í vasann.

 

Ef auka á gæðin í deildinni, af hverju erum við að takmarka okkur á þennan hátt, að annar erlendu leikmannanna verði að vera frá landi innan EES? Af hverju að fá „minna“ fyrir peninginn?

 

7.    Síðasta tillagan til breytingar gengur út á að leyfa frjálst flæði bosman-leikmanna. Sú regla var í gildi hér í kringum Hrunið og var horfið frá henni eftir að gengi íslensku krónunnar féll. 
Satt best að segja var þetta komið út í hálfgerða vitleysu, svona ef maður horfir á uppeldissjónarmiðin sem við viljum nú standa fyrir í íslenskum körfubolta. Með keppnisskapið að vopni vígbjuggust sumir stjórnarmenn með erlendum leikmönnum, ýmist til að komast hjá falli eða tryggja sig í úrslitakeppi. Nú eða til þess að ná í titil.

 

Mér hefur alltaf verið minnisstæður leikur Tindastóls og Hamars í janúar 2008. Hér má sjá tölfræðina úr leiknum.

 

Í þessum leik komu átta erlendir leikmenn við sögu og sjö íslenskir. Erlendu leikmennirnir léku 259 mínútur (32,4 mínútur að meðaltali á mann). Eftir voru 141 mínúta fyrir sjö íslensku leikmennina (20,1 mínúta að meðaltali á mann). 

 

Við í Stjörnunni rúlluðum svo mörgum erlendum leikmönnum í gegnum liðið okkar að við vorum farin að fá þá á punktum hérna undir lokin.

 

Hér er yfirlit yfir fjölda erlendra leikmanna (eftir snögga yfirferð um gamla tölfræðikerfið okkar…maður verður þakklátur fyrir hið nýja kerfi þegar maður vinnur sig í gegnum gamla frumskóginn):

 

Keflavík 3
KR 3
Grindavík 3
Njarðvík 1
Snæfell 3
Skallagrímur 3 til 4
ÍR 2 til 3
Þór Akureyri 2 til 3
Stjarnan 3
Tindastóll 3 til 4
Hamar 3 til 4
Fjölnir 3

 

Stundum er erfitt að segja nákvæmlega til um fjölda erlendra leikmanna, því þeir komu svolítið og fóru þetta ár. 

 

Ég spyr: Viljum við þetta fyrirkomulag aftur? Þetta er bara ákvörðun sem þingið þarf að taka. Persónulega fannst mér þetta vera orðið frekar mikið bull, þetta tímabil. Þarna gerðist það nokkrum sinnum að íslenskir leikmenn á bekknum voru betri en erlendu leikmennirnir. Þá voru hinir dýru erlendu leikmenn ekki sendir á bekkinn, heldur sendir heim og nýr erlendur leikmaður keyptur í staðinn. Allir þessir erlendu leikmenn voru í lykilhlutverki í sínu liði og má ætla um 30 mínútur í leik á þá. Það þýðir að í flestum liðum eru 90 mínútur af mínútum í okkar bestu deild (sem er best til þess fallin að ala leikmenn upp) farnar í erlenda leikmenn.

 

Enn og aftur, þetta er spurning sem þingið þarf að spyrja sig. Viljum hafa 110 mínútur í leik fyrir leikmenn sem eru aldir upp af þessum klúbbum sem eru að mestu reknir áfram af sjálfboðaliðum þar sem engir íslenskir leikmenn eru atvinnumenn. Er þetta rétta leiðin í uppbyggingunni? (einlæg spurning).

 

Að lokum
Megin punkturinn er kannski þessi: Allar reglurnar sem við höfum haft í málefnum erlendra leikmanna eru gallaðar á einn eða annan hátt. Nú erum við búin að prófa 4+1 í tvö ár og erum í kjör aðstöðu til þess að tryggja okkur góðan grunn upplýsinga á næsta þingi. Þá höfum við fengið meiri reynslu á þetta fyrirkomulag og getum þá gert okkur betur grein fyrir því hvort að þessi fjöldi íslensku leikmanna sem hafa farið út í háskóla undanfarin ár sé óeðlilega mikill, eða hvort að þetta sé trend sem muni halda áfram. Og hvort að 4+1 geti gefið okkar unga körfuknattleiksfólki aukin tækifæri og hjálpað því að taka næstu skrefin á ferlinum.

 

Lið á landsbyggðinni og á höfuðbogarsvæðinu hafa komist upp og fallið, sama hvaða regla um erlenda leikmenn er í gildi. Ég vona að við munum ekki lenda í einhverskonar umræðu um landsbyggðin gegn SV-horninu á þinginu.

 

Síðan kannski að lokum: Þarf reglusetning alltaf að miða að því að öll lið geti alltaf unnið titilinn? Þurfa allar reglur að stuðla að því að lið um allt land eigi að geta keppt um titilinn? Ég held að slíkt sé aldrei hægt og ekki nauðsynlegt.

 

Tímabilið sem var að klárast nú var mjög skemmtilegt. Bæði í karla- og kvennaflokki. Þar áttu fjögur félög fulltrúa í úrslitum (KR-Tindastóll og Snæfell-Keflavík). Í undanúrslitum voru sjö félög (Haukar, Keflavík, Snæfell og Grindavík kvennamegin. Tindastóll, KR, Njarðvík og Haukar karlamegin). Það er ekki hægt að þessi 4+1 regla sé til þess fallin að hygla einhverjum tilteknum félögum eða neitt slíkt. Þetta er næstum því eins mikil breidd og hægt er að biðja um. Eina félagið sem átti fulltrúa í undanúrslitum hjá báðum kynjum var Haukar, sem er byggt upp á ungu heimafólki. Ég held að það sé bara jákvætt og að ljóst sé að 4+1 reglan sé ekki að ganga að íslenskum körfubolta dauðum. Ég held að það sé engin ástæða til þess að breyta þessu fyrirkomulagi nú. Það er ekkert sem kallar á slíkar breytingar.

 

Því segi ég: Gefum okkur meiri tíma og söfnum meiri upplýsingum.

 

Kjartan Atli Kjartansson, körfuboltaþjálfari

Fréttir
- Auglýsing -