Elvar Már Friðriksson hefur ákveðið að skipta um skóla í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám. Elvar hefur verið síðastliðið ár hjá LIU háskólanum í New York en mun nú söðla um og fara suður til Miami þar sem hann mun spila með Barry University næstu þrjú árin.
"Ég er að skipta af nokkrum ástænðum. Fyrir það fyrsta þá leið mér alls ekki vel í þessu umhverfi, skólinn var ekki alveg það sem ég var að vonast eftir og svo voru ýmsir aðrir hlutir sem spiluðu inní þetta sem ég ætla ekkert að fara nánar útí. Leiðinlegasta við þetta að nú spilum við Martin ekki áfram saman. En við áttum frábært ár saman og það verður söknuður á því bræðra sambandi sem hefur myndast okkar á milli." sagði Elvar í samtali við Karfan.is í gærkvöldi.
Elvar gekk þokkalega á fyrsta ári sínu og var að fá fínan spilatíma hjá liði LIU en á Elvar þá von á að fá að spila jafn mikið hjá nýja skólanum?
"Ég vildi finna mér stað þar sem mér líður vel bæði innan sem utan vallar. Barry University er mjög flottur D2 skóli og er búin að vera í toopp 10 í D2 síðustu árin. Ég vildi færa mig en um leið ekki bíða heilt ár utan vallar (Red shirt-a) vegna reglna hér í háskólaboltanum, svo ég ákvað að finna mér gott D2 "prógram". Aðstoðarþjálfari liðsins þjálfaði Ægi hjá Newberry þannig að Ægir hjálpaði mér mikið og var í miklu sambandi við aðstoðarþjálfarann. Þeir buðu mér svo að skoða aðstæður og þær eru frábærar þarna hjá þeim þannig að ég er spenntur fyrir nýjum skóla og stefnan verður sett á næstu 3 árin þar. Leikstjórnandi þeirra til síðustu ára var að útskrifast þannig að þeir voru að leita sér af manni í þá stöðu. Ég býst þannig við fínu hlutverki. Ég held áfram að leggja hart að mér til að fá sem mestan spilatíma og stórt hlutverk í nýjum skóla." sagði Elvar að lokum.



