Efnilegasti körfuknattleiksmaður Danmerkur, Rasmus Larsen, fannst í dag látinn á heimili sínu í Belgíu þar sem hann lék með liði Proximus Spirou. www.mbl.is greinir frá.
Í frétt Mbl.is segir:
Larsen var aðeins tvítugur að aldri, 2,12 metrar á hæð og hafði vakið geysilega athygli, talinn í hópi efnilegustu körfuboltamanna Evrópu og þegar verið orðaður við lið í NBA-deildinni.
Þegar hann mætti ekki á fund liðsins fyrir leik gegn Oostende sem átti að fara fram í kvöld í úrslitakeppninni um belgíska meistaratitilinn var farið að huga að honum og starfsfólk félagsins fann hann þá látinn á heimili sínu.
„Þetta er algjör harmleikur fyrir fjölskyldu hans og við erum öll í uppnámi," sagði í yfirlýsingu sem félag hans sendi frá sér fyrir stundu.
Þessi válegu tíðindi koma í kjölfarið á tveimur sviplegum andlátum knattspyrnumanna í Belgíu í vor en þeir létust báðir af völdum hjartastopps.
Rasmus Larsen var fyrir tveimur árum samherji Hauks Helga Pálssonar, landsliðsmanns, en þeir voru þá báðir í röðum spænska félagsins Manresa.
www.mbl.is



