spot_img
HomeFréttirSigur í fyrsta leik U18 kvenna gegn Eistum

Sigur í fyrsta leik U18 kvenna gegn Eistum

Leikurinn hófst á þeirri einkennilegu uppákomu að Arina Vlassenko, leikmaður Eista brunaði upp að eigin körfu til að skora en áttaði sig þó á mistökum sínum áður en alla leið var komið.

 

Töluvert meiri eldmóð og baráttu var að sjá í íslensku stúlkunum í byrjun leiks en hjá andstæðingum þeirra. Töluðu saman í vörn og létu boltann ganga í sókn. Eistar hins vegar voru seinar í gang.  Íslendingar náðu fyrstu tveimur körfunum, komust í 4-0 en Eistum tókst ekki að svara fyrr en tæplega 4 mínútur voru liðnar af leiknum.

 

Þegar líða fór á 1. hluta og langt inn í 2. fóru þær eistnesku að svara fyrir sig, herða vörnina og nýta styrkleika sína í teignum.

 

Jafn leikur þaðan af en Ísland leiddi 23-19 í hálfleik.

 

Þær íslensku hófu seinni hálfleik á því að flækja sóknarleikinn og reyna óþarflega erfiða hluti. Jón Guðmundsson þjálfari kallaði strax leikhlé og leiðrétti það allt saman. Á þessum tímapunkti hafði liðið tapað 12 boltum.

 

Næstu 18 mínúturnar spiluðu þær af miklu öryggi, töpuðu boltanum aðeins þrisvar og náðu 10 stiga forystu sem þær héldu framan af. Þegar um mínúta var eftir höfðu þær Eistnesku saxað á þá forystu og minnkað muninn í 2 stig 55-53.

 

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir hins vegar lokaði leiknum á svellköld á vítalínunni með tveimur skotum ofan í og jók aftur muninn í 57-53.

 

Góður og mikilvægur 57-53 sigur í upphafi móts hjá íslensku U18 stúlkunum.

 

Stigaskor Íslands: Thelma Dís Ágústsdóttir 16, Sylvía Rún Hálfdánardóttir 10, Eva Kristjánsdóttir 8, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 8, Linda Þórdís Róbertsdóttir 5, Elfa Falsdóttir 4, Björk Gunnarsdóttir 2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir 2.

 

Myndasafn úr leiknum: Hörður Tulinius

Fréttir
- Auglýsing -