U16 karla lið Íslands mætti flatt til leiks á móti Noregi í dag. Voru hræddir við andstæðinginn, bæði í sókn og vörn. Töpuðu boltanum ítrekað, keyrðu lítið sem ekkert á körfuna og gáfu Norðmönnum allt of mikið pláss í þeirra sóknarleik.
Ísland skoraði ekki stig fyrr en eftir fjórar mínútur af leiktíma, en þá höfðu Norðmenn náð 9 stigum sjálfir. 12 stiga munur var svo í lok 1. hluta 23-11 fyrir Norðmönnum.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari íslenska liðsins lét sína menn heyra það duglega í leikhléi áður en 2. hluti hófst og það var eins og við manninn mælt að allt annað lið steig inn á völlinn í kjölfarið.
Varnarleikurinn hertist til muna. Ísland spilaði fasta og harða pressu allan völlinn og "gildruvörn" við miðjuna sem kom Norðmönnum oftar en ekki í vandræði. Töpuðu boltarnir hrönnuðust upp hjá Norðmönnum og var hending að þeir kæmust upp að körfunni í færi.
Í sóknarleiknum fór boltinn að ganga og fleiri færi að opnast nær körfunni en höfðu framan af í leiknum. Ísland sigraði 2. hluta 9-20 og komst aftur inn í leikinn en staðan í hálfleik var 32-31 fyrir Noreg.
Í seinni hálfleik hélt íslenska liðið uppteknum hætti og vann 3. hluta 9-29 en gaf örlítið eftir í þeim 4. en endaði samt með öruggan 57-76 sigur á Norðmönnum.
Hákon Hjálmarsson leiddi íslenska liðið með 17 stig og næstur honum kom Nökkvi Nökkvason með 16.



