Sprækar U18 stúlkur Íslands mættu til leiks í dag gegn Finnum, fullar af eldmóð eftir frækilegan sigur á Norðmönnum í gær. Leikgleði, barátta og öguð spilamennska einkenndi leik íslenska liðsins alveg frá upphafi. Boltinn gekk, leikkerfi voru spiluð frá upphafi til enda og varnarleikurinn til fyrirmyndar með baráttu og festu.
Íslensku stúlkurnar héldu þeim finnsku í aðeins 7 stigum í 2. hluta og tóku 10 stiga forystu, 20-30 fyrir leikhlé.
Finnar rifu sig upp í þriðja hluta, settu pressu á þær íslensku sem þær áttu erfitt með að leysa á köflum. Finnsku fóru að sökkva skotum úr öllum áttum og allt í einu var þetta orðið leikur aftur en Finnar unnu 3. hluta 19-12 og minnkuðu muninn í 39-42 áður en honum lauk.
Næstu 10 mínúturnar voru hreinsta háspenna. Liðin skiptust á körfum og leikurinn var jafn allt þar til 7 sekúndur voru eftir þegar Þóra Kristín Jónsdóttir veitti Finnum náðarhöggið með smekklegu sniðskoti eftir magnaða gabbhreyfingu.
Finnar fengu tækifæri til að stela sigrinum á þeim örfáu sekúndum sem eftir voru en það fór forgörðum.
Magnaður háspennusigur enn eina ferðina hjá U18 stúlkunum sem virðist líða best þegar allt er undir.
Thelma Dís Ágústdóttir leiddi íslenska liðið með 13 stig og þar á eftir kom Linda Þórdís Róbertsdóttir með 10. Þóra Kristín Jónsdóttir átti frábæran leik og stýrði leik Íslands eins og herforingi með 9 stig og 7 stoðsendingar (og aðeins 2 tapaða bolta).



