Slæmt tap U16 strákanna í gær gegn Finnum sat þungt í þeim þegar flautað var til leiks gegn Svíum í dag. Trúin á skotið sitt var engin og menn nánast hræddir við snögga og hreyfanlega vörn Svía.
Ísland hitti úr einu skoti utan af velli af 14 í 1. hluta og tapaði 7 boltum. Svíar hins vegar létu rigna fyrir utan, sóttu vægðarlaust inn í teiginn og unnu 1. hluta 6-23.
2. hluti var ögn skárri hjá íslenska liðinu sóknarlega en Hákon Hjálmarsson bar hitann og þungann af sóknarleiknum með 8 stig. Flest öll stig Íslands komu af vítalínunni en Nökkvi Nökkvason setti svo þrist í lok fyrri hálfleiks til að koma Íslandi upp í 24 stig á móti 50 frá Svíum í hálfleik.
Lítið breyttist í seinni hálfleik nema hvað sóknarleikurinn glæddist í 3. hluta. Fleiri tóku þátt í honum og skoraði Ísland 21 stig í honum en fékk hins vegar á sig 28. Þar af 15 á fyrstu 4 mínútunum.
Vörn Íslands réð illa við hávaxna og snögga Svíana en skotnýting þeirra innan þriggja stiga línunna var 71%.
Stórt 58-105 tap gegn Svíum í U16 karla.
Nökkvi Nökkvason var stigahæstur Íslendinga með 14 stig en á eftir honum kom Hákon Hjálmarsson með 13.



