Unglingaliðið Stella Azzura sem að Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson hefur leikið með síðustu tvö ár mátti þola þrjú stór töp í leikjum sínum í lokaúrslitum Euroleague NGT (Next Generation Tournament) en liðið ávann sér þáttöku rétt fyrr í vetur. Stella mættu fyrst ógnar sterku liði Real Madrid þar sem þeir töpuðu 74:43 en þess má geta að Real Madrid spila úrslitaleikinn á morgun.
Næsti leikur liðsins var svo gegn liði Riga frá Lettlandi. Lið Riga tók öll völd á vellinum strax í upphafs fjórðung og lönduðu öruggum 92:61 sigri. Kristinn Pálsson var stigahæstur Stella með 16 stig.
Síðasti leikur liðsins fór svo fram í morgun þar sem þeir enn og aftur áttu ekki erindi sem erfiði þegar þeir mættu liði Insep Paris. Enn og aftur náðu Stella menn ekki að sjá til sólar og töpuðu leiknum 85:55 og aftur var okkar maður Kristinn Pálsson stigahæstur með 12 stig og endaði hann móti sem stigahæsti leikmaður liðsins.
Það er óhætt að segja að þarna voru á ferðinni allir þeir allra bestu ungu leikmenn Evrópu eða eins og nafn mótsins gefur til kynna, "Næsta kynslóð".
"Þetta mót var gríðarlega sterkt og í raun vissi ég ekki að þessi lið væru svona sterk. En þetta var lærdómsríkt fyrir okkur og mig sem einstakling. Á þessum stuttu þremur dögum hérna og þrátt fyrir stórtöp þá vil ég meina að ég hafi grætt helling á þessu og sé að ég á nóg inni og margt ólært. Þetta gefur manni bara kraft í að æfa meira og betur." sagði Kristinn Pálsson í stuttu spjalli við Karfan.is
Kristinn hefur nú lokið tveggja ára skólagöngu sinni á Ítalíu og ekki alveg vitað hvað tekur við en hugur hans stefnir til Bandaríkjanna í háskólanám.



