Hér að neðan fer grein úr Morgunblaðinu sem blaðamaðurinn Benedikt Bóas Hinriksson ritaði. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi höfundar:
„Unglingaflokkurinn varð Íslandsmeistari og þar eru í liðinu strákar sem eru í námi hjá okkur í því sem í daglegu tali er kallað körfuboltaakademían,“ segir Þorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
Varla fór framhjá neinum íþróttaunnanda að Tindastóll fór alla leið í úrslit gegn KR þar sem margir ungir og efnilegir leikmenn skinu skært gegn stjörnum prýddu liði KR. Pétur Rúnar Birgisson var þannig valinn besti ungi leikmaður deildarinnar. Margar ástæður eru að baki þessari velgengni en ein af þeim er akademían þar sem Israel Martin Conception, þjálfari Tindastóls, ræður ríkjum. Akademían er hluti af íþrótta- og tómstundabraut skólans.
„Við höldum því fram að þarna fái menn og konur toppþjálfun og -tilsögn. Þetta sé ein skýringin á góðu gengi Tindastóls í vetur. Hugmyndin er að þeir sem vilja koma hingað og stunda körfubolta geti það við toppaðstæður.“
Stelpurnar í landsliðsklassa
Þessi góði árangur nær ekki aðeins til karlkyns íþróttamanna því stúlkur sem sótt hafa körfuboltaakademíuna hafa einnig náð góðum árangri. Þannig er Linda Þórdís Róbertsdóttir í liði Íslands á Norðurlandamóti sem haldið verður í Svíþjóð en Bríet Lilja Sigurðardóttir var einnig valin í æfingahópinn. Bríet var síðan valin í lið ársins í 1. deild kvenna í körfunni. Nemendur fá leyfi frá skólanum sérstaklega ef þeir eru valdir í landsliðsverkefni.
„Það er á okkar ábyrgð að gera það. Til að keppa fyrir sín lið og sérstaklega landið fær fólk leyfi. Íþróttamönnum gengur yfirleitt vel í námi þrátt fyrir fjarvistir því þeir ná yfirleitt að beita sama aganum og þeir þurfa við íþróttaiðkun. Við lítum svo á að þetta styðji hvað annað.“
Missum fólk á hátindinum
Nú hefur verið unnið markvisst að því í menntamálaráðuneytinu að stytta nám í framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú, sem myndi þýða fyrir framhaldsskóla á landsbyggðinni að nemendur færu mögulega fyrr í burtu. „Vissulega hefur slíkt áhrif á lið úti á landi því við missum frá okkur keppendur, bæði konur og karla. Fjarnám er að aukast og spurning hvort einhverjir fari þá leið. Ungt fólk fer frá okkur þegar það hefur lokið framhaldsskólanum og fer til Reykjavíkur eða utan. Það er því með ólíkindum hver velgengnin var því við erum í allt annarri deild en aðrir að sækja leikmenn. Meðan við höldum áfram getum við búið til svona lið, eins og í unglingaflokki, sem varð Íslandsmeistari, en því miður er líklegt að við missum þá á hátindinum,“ segir Þorkell.
Eins og staðan er í dag er aðeins í boði körfuboltaakademía en Þorkell segir að íþróttahérað eins og Skagafjörður sé opið fyrir fleiri íþróttum. Þetta hafi sannað sig.
Íþróttir og árangur
Trúlega tengja flestir íþróttaiðkun Skagfirðinga við hesta og körfubolta. Þar er þó einnig stundaður fótbolti, golf og sund og skíðasvæði Sauðkrækinga í Tindastóli þykir nokkuð gott. Þá æfði Jón Arnar Magnússon, einn af okkar fremstu frjálsíþróttamönnum, á Sauðárkróki og landsmenn kannast við knattspyrnuferil Eyjólfs Sverrissonar. Á næsta ári verður ný íþrótta- og tómstundabraut við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í boði fyrir nýnema þar sem lögð verður áhersla á íþróttir og allir eru velkomnir, strákar og stelpur.
„Fyrir þá sem ekki búa á Sauðárkróki erum við með heimavist sem nýbúið er að taka í gegn og endurnýja. Hugmyndin er að krakkar geti komið hingað sem vilja mennta sig og stunda íþróttir, náð árangri og tvinnað það saman við námið,“ segir Þorkell.
Mynd með frétt/ Sumarliði Ásgeirsson – Unglingaflokkur Tindastóls Íslandsmeistari 2015.



