Real Madrid var rétt í þessu að tryggja sér Evrópumeistaratitil félagsliða (Euroleague) með sterkum sigri á Olympiacos. Allt stefndi í hörkuspennandi leik en Real Madrid seig hægt en örugglega fram úr í þeim síðari. Lokatölur 78-59 og 20 ára bið Real Madrid eftir sigri í Euroleague því á enda.
Grikkirnir með Matt Lojeski leiddu 15-19 eftir fyrsta leikhluta þar sem Lojeski gerði 10 af fyrstu 19 stigum Olympiacos í leiknum. Í öðrum leikhluta hertu heimamenn í Real Madrid róðurinn í vörninni og héldu Olympiacos í aðeins níu stigum og leiddu því 35-38 í hálfleik.
Olympiacos beit frá sér í þriðja, náðu 8-0 spretti og komust í 40-41 en Real reif sig frá að nýju, settu saman 13-4 áhlaup og leiddu 53-46 eftir þriðja lekhluta. Í þeim fjórða jókst munurinn jafnt og þétt og Real kláraði leikinn af öryggi 78-59.
Andres Nocioni var valinn verðmætasti leikmaður undanúrslitanna en hann gerði 12 stig í úrslitaleiknum áðan, tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Jaycee Carroll hitnaði einnig, setti 4 af 5 í þristum og lauk leik með 16 stig og 3 fráköst. Hjá Olympiacos lauk Matt Lojeski leik með 17 stig og Vassilis Spanoulis sem var að tapa sínum fyrsta úrslitaleik í Euroleague gerði aðeins þrjú stig og gaf 3 stoðsendingar.



