spot_img
HomeFréttirFIBA Europe í mál við Euroleague!

FIBA Europe í mál við Euroleague!

FIBA Europe hefur höfðað mál á hendur Euroleague (meistaradeild Evrópu) þar sem meistaradeildin hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart FIBA Europe. Um tugi milljóna er að ræða. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og stjórnarmaður hjá FIBA Europe sat stjórnarfund á Möltu um síðustu helgi sem og aðalfund FIBA Europe þar sem greint var frá málshöfðuninni. Hannes sagði í samtali við Karfan.is að ljóst væri að breytingar yrðu á klúbbakeppni Evrópukeppninnar á allra næstu árum og vonandi strax á næsta ári. 

Í tilkynningu frá FIBA Europe segir að verið sé að vinna að endurskipulagningu klúbbakeppna í Evrópukeppninni og að viðræður standi yfir við klúbba, styrktaraðila, sýningaraðila og aðra hagsmunaaðila. 

FIBA Europe segir það ekki þjóna hagsmunum félagsliðanna að hafa þrjár mismunadi Evrópukeppnir félagsliða og að nýjar leiðir verði kannaðar. Vangoldin gjöld Euroleague hafa nú ratað fyrir dómstóla. 

„Stjórn FIBA Europe og ég sem stjórnarmaður teljum mjög mikilvægt að klúbbakeppnin heyri undir okkur. Þeir sem hafa verið með Euroleague  í einkarekstri hafa ekki staðið við sínar skuldbindingar gagnvart FIBA Europe og klúbbunum,“ sagði Hannes við Karfan.is en upphæðirnar hlaupa á tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. 

„Að sjálfsögðu á meistaradeild Evrópu að eiga heima undir FIBA Europe og ég tel að þannig getum við mun betur eflt körfuboltann í Evrópu,“ sagði Hannes en er þá svo að skilja að Euroleague (meistaradeildin) sé á leið undir hatt FIBA Europe sé litið til þeirra skulda sem FIBA Europe á útistandandi hjá Euroleague?

„Það er ómögulegt að segja til um það núna en þó er ljóst að breytingar verða á þessari klúbbakeppni á allra næstu árum, helst strax á næsta ári.“ 

Til upplýsinga:
– FIBA Europe er körfuknattleikssamband Evrópu. Euroleague er meistaradeild félagsliða sem rekin er af einkafyrirtækinu Euroleague Basketball Company. Fyrirtækið heldur úti Euroleague og Eurocup en Eurocup er næstefsta þrep meistaradeildar félagasliða í körfuknattleik. Málaferli FIBA Europe beinast því að Euroleague Basketball Company.

Mynd/ [email protected] – Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og stjórnarmaður FIBA Europe. 

Fréttir
- Auglýsing -