Snorri Hrafnkelsson er á förum frá Njarðvík en þetta staðfesti leikmaðurinn við Karfan.is í kvöld. Snorri er Blikamaður að upplagi sem gekk í raðir Keflvíkinga 2013 frá Breiðablik en skipti svo yfir í Njarðvík og var með 4,7 stig og 3 fráköst að meðaltali í leik með Njarðvík á síðustu leiktíð.
Svo virðist sem stríður straumur sé úr Ljónagryfjunni um þessar mundir því áður hafa þeir Ágúst Orrason og Magnús Már Traustason sagt skilið við Njarðvíkinga og báðir gengnir í raðir Keflavíkur.
Hvert Snorri síðan fer á eftir að skýrast síðar en ljóst er að þessi ungi miðherji/framherji á eftir að verða ríkuleg búbót fyrir næsta lið enda sýndi hann sterka takta á köflum í úrslitakeppninni með Njarðvíkingum sem og í deildarkeppninni.
Hvað Njarðvíkinga varðar hafa orðið heldur betur breytingar í Ljónagryfjunni því á um það bil hálfu ári hafa Rúnar Ingi Erlingsson, Ólafur Aron Ingvason, Óli Ragnar Alexandersson, Ágúst Orrason, Magnús Már Traustason og nú Snorri Hrafnkelsson sagt skilið við klúbbinn. Þá er enn óljóst hvernig framhaldið verður hjá Mirko Stefáni sem hefur þegar gefið út að hann ætli sér í atvinnurekstur í Belgrad.



