Borgnesingurinn Pálmi Þór Sævarsson hefur gert fimm ára samning við körfuknattleiksdeild Skallagríms um að sinna embætti yfirþjálfara yngri flokka starfs deildarinnar. www.skallagrimur.is greinir frá.
Á heimasíðu Skallagríms segir:
?Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Skallagrímsmenn enda á Pálmi að baki yfirgripsmikla og góða reynslu sem leikmaður og þjálfari hjá félaginu. Hann lék með Skallagrími í áraraðir og skipaði til dæmis stórt hlutverk þegar liðið komst í úrslit gegn Njarðvíkingum tímabilið 2005-2006. Síðar varð hann þjálfari liðsins í fjögur tímabil (2010-2014) og náði góðum árangri þar sem hann stýrði því upp um deild og í úrslitakeppni. Pálmi er því öllum hnútum kunnugur hjá Skallagrími
Pálmi hefur verið starfandi fyrir verkfræðistofuna Verkís í Noregi undanfarin misseri en hann mun frá og með næsta hausti sinna alfarið verkefnum fyrir stofuna hér landi. Samhliða því mun hann sinna þjálfuninni. Pálmi hyggst innleiða nýjar áherslur í yngri flokka starfinu sem mun styrkja það góða starf enn frekar. Áherslurnar munu byggja á samfelldu skipulagi og flæði á kennsluháttum milli aldursstiga þannig að iðkendur þrói færni sína á körfuboltavellinum á réttan og markvissan hátt.



