Kristinn Pálsson körfuknattleiksmaður úr Njarðvík lauk í dag frábærri veru sinni til tveggja ára á Ítalíu þegar lið hans Stella Azzura varð ítalskur meistari í U19. Þetta er hæsti flokkur yngri flokka þarlendis og myndi því vera heimfært á unglingaflokk hér heima á Íslandi. Kristinn fór hægt um sig í úrslitaleiknum og skoraði 6 stig en leikurinn sjálfur gegn liði Pistoia vannst með minnsta mun, 61:60.
"Þetta er ólýsanlegt og búið að vera alveg svakalega gaman síðan hjá okkur strákunum síðan titillinn vannst fyrir ca. tveimur tímum síðan. Þetta vorum við ásamt öðrum þremur liðum sem voru sigurstranglegust þetta árið. Þetta ár fer í sögubækurnar hjá Stella Azzura þar sem við unnum titilinn, við töpum aðeins einum leik hér heima fyrir í deildinni. Sigruðum svo í fyrsta skipti forkeppni fyrir Euroleague og spiluðum þar í 8 liða úrslitum. Það voru ákveðin vonbrigði þar en við rifum okkur upp og viku seinna erum við að hampa stóra titilinum hérna á Ítalíu. Það eru allir í liðinu sáttir með að hafa komið sterkir tilbaka eftir þessa útreið þarna í Madrid." sagði Kristinn í samtali við Karfan.is nú rétt áðan.

Kristinn hefur nú dvalið í tvö ár hjá Stella Azzura á Ítalíu og verið við nám í skóla þarlendis. Kristinn segir þetta gríðarlega mikinn lærdóm en þó alls ekki bara körfuboltalega séð þó svo að það hafi einnig verið gríðarlegt. "Ég er búin að læra gríðarlega mikið um lífið og tilveruna og að vera svona mikið frá fjölskyldunni. Svo bara um liðsvinnu og liðsbolta. Við strákarnir erum mjög samrýmdir og búum allir saman á svona ´campus´ eiginlega þannig séð. Það hafa komið erfiðir tímar en þeir hafa verið fáir því þegar það ber upp þá eru félagarnir komnir til að peppa mann upp. En málið er bara að komast í rútínu og þá venst þetta. Og það geri ég náttúrulega líka við þá. Liðið er gríðarlega sterkt og margir góðir leikmenn og það hefur kennt manni að sitja á bekknum þegar manni persónulega gengur illa og þá styðja við hina strákana sem eru þá að spila vel hverju sinni."
En hvað tekur svo við hjá Kristni Pálssyni eftir þetta ár? "Draumurinn um háskólaboltann í Ameríku lifir sterkt í mér og það er stefnan. Ég hef fengið boð um heimsókn í nokkra skóla en engin ákveðin tilboð. Ég er þolinmóður og skoða þetta allt vandlega áður en eitthvað verður ákveðið. Annars þá ef ekkert spennandi er í boði þá tek ég eitt ár heima með Njarðvík og reyni þá svo aftur á næsta ári."

Myndir/basketinside.com



