Unicaja Malaga voru nú rétt í þessu að tryggja sér sigur gegn liði Laboral Kutxa í oddaleik um sæti í fjögura liða úrslitum ACB deildarinnar á Spáni. Ekki blés byrlega framan af leik fyrir þá grænklæddu þar sem Laboral leiddi í hálfleik 46:51. Loka staða leiksins varð 12 stiga sigur, 89:77 en undir lok leiks ætlaði allt um koll að keyra þegar að því virtist leikmenn Malaga ætluðu að láta klukkuna líða út þegar Ryan Toolson keyrði óáreyttur að körfu Laboral og tróð með tilþrifum. Leikmenn Laboral voru alls ekki sáttir með þetta hjá Toolson.
En leikurinn í heild sinni var gríðarlega jafn og okkar maður Jón Arnór spilaði rúmar 10 mínútur í leiknum, flestar í þriðja fjórðung þar sem hann skoraði sína einu körfu í leiknum en nota bene kom Malaga loksins yfir í stöðunni 53:51. Eftir þessa körfu Jóns komust Laboral Kutxa ekki aftur yfir og Malaga heldur því áfram í keppninni og mætir næst stórliði Barcelona.
Þetta er enn ein rósin í hnappagatið hjá Jón Arnór sem er nú í annað skiptið á ferlinum komin í fjögura liða úrslit í sterkustu deild Evrópu.



