„Þolinmæði þrautir vinnur allar“ stendur einhverstaðar ritað og það var þolinmæðisverk hjá íslenska kvennalandsliðinu að leggja Möltu að velli á Smáþjóðaleikunum í kvöld. Lokatölur 83-73 Íslandi í vil efitr brösuga byrjun íslenska liðisins. Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í kvöld með 22 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar en gott framlag kom úr fjölmörgum áttum og leikur Íslands óx með hverjum leikhluta sem lyktaði með sanngjörnum sigri.
Gestirnir frá Möltu voru ekkert að tvínóna við hlutina og opnuðu leikinn 0-8! Íslenska liðinu gekk ekkert í námunda við körfuna en þegar Sara Rún kom inn af bekknum fóru hjólin að snúast. Sara setti strax mark sitt á leikinn og losaði aðeins um vörn gestanna, Hildur Björg færði sig fjær körfunni og skellti niður tveimur þristum og minnkaði muninn í 14-18. Gestirnir leiddu 16-24 eftir fyrsta leikhluta þar sem íslenska liðið var 1-9 í teigskotum en 3-7 í þristum. Sara Rún með 7 stig eftir þennan fyrsta hluta og Hildur Björg 6.
Varnarleikur íslenska liðsins var allur annar og betri í öðrum leikhluta en rétt eins og í fyrsta leikhluta var skotnýtingin ekkert til að hrópa húrra yfir. Helena Sverrisdóttir var í strangri gæslu gestanna en svona leikmenn láta ekki kyrrsetja sig og með Helenu í broddi fylkingar fór íslenska liðið að saxa á forystu gestanna. Ísland jafnaði loks leikinn 33-33 en þar var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir að verki eftir hraðaupphlaup. Gunnhildur Gunnarsdóttir kom Íslandi svo yfir í fyrsta sinn í leiknum 35-33 með sterku gegnumbroti en Maltverjar jöfnuðu metin með flautukörfu og staðan því 35-35 í háflleik.
Helena Sverrisdóttir var með 13 stig og 3 fráköst í íslenska liðinu í hálfleik og Sara Rún með 7 stig.
Pálína María Gunnlaugsdóttir taldi í og íslenska liðið fann sinn besta hljóm til þessa í leiknum í þriðja leikhluta. Pálína með þrist og Hólmarinn Gunnhildur Gunnarsdóttir fylgdi þar skömmu á eftir með annan slíkann. Maltverjar báðu um leikhlé þegar Pálína hafði rifið Ísland í átta stiga forystu, 49-41 með öðrum þrist og íslenska liðið komið á sporið. Ísland gerði 27 stig í þriðja leikhluta og leiddi liðið 62-54 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Flott frammistaða og gott framlag úr fjölmörgum áttum þennan leikhlutann og þá áttu gestirnir fá svör.
Margrét Rósa Hálfdanardóttir átti flottar rispur í síðari hálfleik og var að hitta vel. Maltverjar klóruðu sig nærri og náðu að minnka muninn í 66-63 en þá sleit Ísland sig frá að nýju og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir jók muninn í tíu stig eða 77-67 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Spennuleikur enn í gangi en einn helsti prímusmótor íslenska liðsins í kvöld, Pálína Gunnlaugsdóttir, ísaði verkið þegar hún kom Íslandi í 80-67 og tvær mínútur eftir. Maltverjar urðu ekki til frekari vandræða þetta skiptið og lokatölur 83-73.
Helena Sverrisdóttir lauk leik með 22 stig, 6 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 4 fráköst. Hildur Björg Kjartansdóttir bætti við 14 stigum og 8 fráköstum, Margrét Rósa Hálfdanardóttir átti flottan dag með 10 stig og 5/7 í teigskotum og þá var Pálína Gunnlaugsdóttir með 9 stig og 4 fráköst og reif íslenska liðið og andann upp í hópnum þegar mest á reyndi.
Mynd/ Bára Dröfn Kristinsdóttir – Helena Sverrisdóttir sækir að vörn Möltu í Laugardalshöll í kvöld.



