Lúxemborg er Smáþjóðameistari í körfubolta kvenna eftir 54-59 sigur á íslenska kvennalandsliðinu í Laugardalshöll. Viðureign liðanna var að ljúka þar sem litlu hlutirnir eins og t.d. vítaskot sönnuðu enn eina ferðina að þeir eru í raun bara ekkert litlir, heldur oft bara stórir eða risavaxnir. Ísland setti sem dæmi aðeins eitt af fjórum vítum á viðkæmum tíma leiksins og þau hefðu betur mátt rata rétta leið. „Ef“og „hefði“ hugleiðingar hjálpa samt ekkert, íslenska liðið sýndi góðar hliðar en vantaði grimmd í að klára verkið. Helena Sverrisdóttir lauk leik með 10 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst.
Lúxemborg opnaði úrslitaleikinn með þriggja stiga körfu og byrjuðu betur en íslenska liðið með radar-sjón Helenu Sverrisdóttur tók fljótlega við sér og leiddi 18-16 eftir fyrsta leikhluta þar sem Helena var dugleg að spila uppi liðsfélaga sína. Helena mátti samt bíða í rúmar 13 mínútur áður en hún gerði sín fyrstu stig í leiknum.
Annar leikhluti hófst með fljúgandi starti íslenska liðsins sem jók muninn í 28-18. Lúxemborg var þó ekki af baki dottin og átti síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks og nýtti þær í að minnka muninn í 30-26 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Bryndís Guðmundsdóttir var með 7 stig í íslenska liðinu í hálfleik en þær Helena Sverrisdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir voru allar með 5 stig. Hjá Lúxemborg var Cathy Schmit með 8 stig og 4 stoðsendingar.
Gestirnir frá Lúxemborg voru magnaðir í þriðja hluta, unnu leikhlutann 13-23 og leiddu 43-49 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Sara Rún Hinriksdóttir gerði sín fyrstu stig í íslenska liðinu þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum, Sara minnkaði þarna muninn í 45-52 en þarna sást að stigaskorið var á of fáum herðum í dag. Ógnanirnar voru ekki nægilega margar og Lúx líkaði það vel að taka fast á íslenska liðinu í teignum með hina hávöxnu Lisu Jablonowski í námunda við hringinn.
Þegar mínúta lifði leiks náði Ísland varnarfrákasti í stöðunni 53-55. Varnarmenn Lúxemborgar gengu í málið og hrifsuðu boltann einfaldlega úr íslenska liðnu, eflaust einhverjir flautað villu á tilburði gestanna en sú varð ekki raunin og Lúxemborg fékk þar ódýra körfu og jók muninn í 53-57. Eftir þetta hélt Ísland í tvígang á vítalínuna þar sem aðeins eitt af fjórum vítaskotum fann sér leið í gegnum hringinn og… þetta sveið! Lúxemborg hélt út og fagnaði sigri 54-59.
Súr niðurstaða fyrir kvennaliðið sem sýndi vissulega flottar hliðar á mótinu. Forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu en íslenska liðið leikur æfingaleiki í Danmörku í júlíbyrjun.
Helena Sverrisdóttir var stigahæsti leikmaður mótsins með 16 stig að meðaltali í leik, næst á eftir henni í íslenska liðinu og í sjötta sæti listans var Hildur Björg Kjartansdóttir með 10,67 stig að meðaltali í leik. Helena var svo önnur á blaði yfir framlagshæstu leikmenn mótsins með 22,33 framlagsstig að meðaltali í leik en þar var efst hin hávaxna Lisa Jablonowski með 22,67 framlagsstig í leik.
Mynd/ Lisa Jablonowski framlagshæsti leikmaður Smáþjóðaleikanna var sátt með gullið.



