Undirritaður er ný komin tilbaka úr ferð til Malaga sem seint mun gleymast. Jón Arnór Stefánsson, íþróttamaður ársins og félagar hans í Malaga með bakið upp við vegginn fræga og það gegn tröllvöxnu og rándýru liði Barcelona sem virtist vera að toppa í sínum leik á hárréttum tíma. Gárungar á Spáni töluðu jafnvel um að í ár myndu þeir taka titilinn annað árið í röð og skáka enn og aftur erkifjendum sínum í Real Madrid.
Þrátt fyrir allar spár um að sópurinn frægi færi á loft í Malaga komu heimamenn flestum nema sjálfum sér á óvart og sigruðu með öguðum varnarleik og auðvitað "dash" af smá heppni. Mín skoðun er sú að það þarf alltaf smá af henni en að því sögðu þá trúi ég því einnig að menn "búi til" sína eigin heppni. Leikurinn fór í framlengingu og þetta kvöldið var stemmningin einhvernvegin þannig að Malaga var alltaf að fara að vinna þetta. Stemmningin meðal stuðningsmanna algerlega ólýsanleg og undirritaður sem hefur farið á fjöldann allan af viðburðum (tónleikar, NBA leikir, leikir í enska boltanum svo eitthvað sé nefnt) en aldrei upplifað neitt slíku og á miðvikudagskvöld. Blóðheitir Spánverjarnir stóðu þétt við bak sinna manna í gegnum hverja orrahríð piltana frá Katalóníu.
Þetta er í fjórða skipti sem undirritaður fer á leik í ACB deildinni og annað skiptið í undan úrslitum. Fyrra skiptið var það leikur CAI Zaragoza gegn Real Madrid og svo auðvitað leikurinn á miðvikudag. Aðal ástæða þessa pistils er sú að afhverju í ósköpunum fylgjumst við Íslendingar ekki betur með þessum sterku Evrópudeildum þó það væri nú ekki bara ACB deildin. Hvernig stendur á því að ljósvakamiðlar landsins sýni þessu ekki áhuga. Þarna er körfuboltinn eins "fallegur" og hann gerist. Ef ég tek bara lið eins og Real Madrid og Barcelona, "stóru fiskarnir" í tjörninni þá eru þetta lið sem hafa sýnt undirrituðum óhemju huggulegan körfuknattleik. Agað og kerfisbundið sýsla þeir kerfi sín í gegn hvort sem það sé sóknarlega eða varnarlega og útkoman oftast nær opið skot einhverstaðar á vellinum. Auðvitað geta svo þessi stóru lið klikkað í sínum leik eins og sýndi sig á miðvikudag og svo einnig RMA tapaði óvænt á heimavelli gegn Valencia nú fyrir ca viku síðan. Hver hér hefur ekki horft uppá lið S.A. Spurs í NBA og hrifist af þeim einstaka liðsbolta sem þeir hafa sýnt í gegnum síðustu ár. Þetta er í hverri viku þarna á Spáni! Ég myndi líkja þessu við að fylgjast með spennandi hraðskák þar sem leikmenn skila af sér ýmist sendingu, skríni eða einhverju álíka sem mun svo færa þeim auðvelda körfu í næstu þremur sendingum. Vona að ég sé ekki að lýsa þessu of flóknu en þetta er hrein unun að fylgjast með þessu.
Svo ég haldi áfram með ACB deildina þá fullyrði ég að lungin af þeim leikmönnum í þessum stóru liðum gætu vel plummað sig í NBA deildinni og gott betur. Mýmörg dæmi eru þess að leikmenn úr ACB deildinni flakki á milli og nú bara í þessari viku eru fréttir þess efnis að Houston Rockets ætli að gera allt í sínu valdi til að lokka Sergio Llull, leikstjórnanda Real Madrid í NBA deildina og hann á að stjórna leik liðsins næstu árin. Að öllu leyti snýst þetta um markaðssetningu og eins ótrúlegt og það hljómar þá er það bara gríðarlega góð markaðssetnings sem stýrir því hvort við Íslendingar horfum á einn til tvo leikmenn bera uppi sín lið með, jú frábærum og stundum hreinlega ótrúlegum töktum eða þá að fylgjast með af aðdáun fallegum körfuknattleik! Þar sem taktík og hnit miðuð kænska liðsins í heild sinni ræður úrslitum leikja. Auðvitað má ekki misskilja mig, það koma dæmi þess að við sjáum flott liðs tilþrif í NBA deildinni en allt of sjaldan. En mín upplifun eftir að hafa farið á nokkra leiki í NBA þá snérist þetta miklu meira um að selja vörur, hálfleiks sýning þar sem T-bolum er skotið uppí stúku. Fólk að kyssast og knúsast til að komast á "Jumbo-tron" og stuðningsmenn hvetja ekki fyrr en þeir fá "cue" á risaskjánum um að nú þurfi þeirra lið að spila góða vörn ("D-fense" og þeir geta ekki einu sinni stafsett þetta rétt)
En við erum öll sek ef svo má að orði komast hvers vegna svona er og undirritaður er þar með talinn með. NBA deildin hefur jú það forskot að hafa haft þessar stórstjörnur í gegnum árin og þá kemur aftur að því markaðsstarfi sem deildinni fylgir. Í raun höfum við aldrei haft neitt aðdráttarafl til þess að fylgjast með Evrópuboltanum þar sem við þekkjum ekkert til hans og hægt er að telja á annari hendi þá Íslendinga sem spilað hafa í alvöru bolta þar síðustu áratugina (Teitur í Grikklandi og þar með er það upptalið – Hugsanlega að gleyma einhverjum) En það hefur breyst til hins betra. Stór hluti af okkar bestu mönnum eru annað hvort í Evrópu eða hafa verið þar. Mín skoðun reyndar sú að flestir þessir peyja gætu allir verið í stærri deildum en t.d. Svíþjóð en það er bara mín skoðun og ég veit fyrir víst að þetta er "hark" og það þarf jú að fylgja viss heppni. En þá vísa ég aftur í það sem ég sagði hér að ofan að menn búa til sína eigin heppni.
En hvað getum við þá gert til þess að koma þessu betur á kortið? Hvað getum við gert til þess að við getum fengið að fylgjast betur með þessum stórglæsilega körfuknattleik sem ég lýsi hér að ofan? Ég neita að trúa því að ég sé sá eini sem hefur séð til San Antonio Spurs síðustu vetra og hugsað með mér "Þetta var skuggalega flottur bolti hjá þeim" Ég neita einnig að trúa því að þeir tveir ljósvakamiðlar sem sinna því að koma beinum útsendingum inná íslensk heimili hafi ekki í það minnsta kannað möguleikann á því að sýna frá þessum bolta, sér í lagi þar sem okkar dáðasti drengur er nú iðinn í einu besta félagsliðið deildarinnar.
Ég get alveg séð fyrir mér að sumir telji mig hér vera að skíta út NBA boltann eða gera lítið úr honum. Það er alls ekki vendipunktur þessa pistils því vissulega fer margt gott þar fram (úrslitakeppnin) og þrátt fyrir þessar lýsingar mínar þá finnst mér gaman að fara á leik í NBA, svo ekki sé talað um háskólaboltann sem er enn önnur vídd af körfuknattleik sem ætti að sýna í það minnsta í Mars mánuði.
Mynd: Jón Arnór sér um varnarleik gegn einni mestu stórstjörnu Spánverja síðustu ára, Carlos Navarro.



