Norðurlandamóti U20 ára landsliða lýkur í Finnlandi í dag og eftir fyrstu tvo keppnisdagana eru Íslendingar ofarlega á blaði í helstu tölfræðiþáttum. Jón Axel Guðmundsson og Dagur Kár Jónsson leiða mótið í stigaskori og Jón Axel er í 3. sæti mótsins yfir framlagshæstu menn.
Íslendingar leiða stigaskorið á mótinu en jafnir í 1.-2. sæti eru þeir Jón Axel Guðmundsson og Dagur Kár Jónsson báðir með 17,5 stig að meðaltali í leik þessa fyrstu tvo leiki mótsins. Pétur Rúnar Birgisson er í 10. sæti listans með 10 stig að meðaltali í leik.
Jón Axel og Pétur Rúnar eru svo í 4. sæti yfir stoðsendingahæstu leikmenn mótsins, báðir með 2,5 stoðsendingar að meðaltali í leik en efstur er Finninn Tuomas Hirvonen með 4,5 stoðsendingar.
Jón Axel er svo fimmti yfir frákastahæstu leikmenn með 6,5 fráköst að meðaltali í leik.
Dagur Kár og Jón Axel eru svo ofarlega í framlaginu, Jón Axel í 3. sæti með 15,5 framlagsstig að meðaltali í leik og Dagur Kár í 4. sæti með 14,5 í leik.
Ísland og Finnland mætast í lokaleik mótsins í dag kl. 11:30 að íslenskum tíma.
Mynd/ Dagur Kár í leik með Stjörnunni.



