Nú fyrr í dag varð það ljóst að Stefan Bonneau mun spila áfram með Njarðvíkingum en fáir komust hjá því að heyra af og þá sjá tilþrif hans á vellinum með þeim grænklæddu. Liðið gerbreyttist eftir áramót og allt annar bragur á leik liðsins. Njarðvíkingar hafa misst fjóra leikmenn (Ágúst Orra, Magnús Traustason, Mirko Stefan og Snorri) úr sínum hópi en að sama skapi bætt við sig eins og við greindum frá í gær.
Stefan sagðist í samtali við Karfan.is hlakka til að koma tilbaka. "Ég og Gunnar (Örlygsson) höfum verið að ræða þetta fram og tilbaka. Og ræddum um hvernig liðið yrði á næsta ári og mér leið vel með að koma aftur til Íslands þannig að ég sló til. Ég held að það verði gott fyrir mig að koma aftur og spila með Njarðvíkingum. Nú setjum við okkur markmiðið að spila um titla, það er engin spurning." sagði Bonneau
En hvaða væntingar hefur hann til liðsfélaga sinna á komandi leiktíð? " Að við verðum tilbúnir í hvern leik eins og það sé okkar síðasti. Við eigum það allir sameiginlegt að vilja vinna og við vitum hvað þarf til þess. Við þurfum bara að undirbúa okkur vel og vera tilbúnir þegar kemur að þessu." bætti Bonneau við.



