„Þetta mót er frekar lítið og hin liðin nota þetta sem æfingamót fyrir EM til að fá einhverja æfingaleiki og er ekki mikið að verðlaunum eins og á NM í Solna en þetta er gríðarlega skemmtilegt mót eins og öll mót eru,“ sagði Jón Axel Guðmundsson leikmaður U20 ára landsliðs Íslands sem vann til silfurverðlauna á Norðurlandamótinu í Finnlandi.
„Það væri skemmtilegt ef við værum að horfa á þetta mót með sömu augum og þau, þar að segja nýta þetta mót sem æfingamót fyrir EM. Þessi aðstæða hér er líka „toppnæs“ og er eitthvað next level miðað við að þetta er aðeins æfingaaðstæða fyrir landslið hjá Finnlandi,“ sagði Jón og var einnig sáttur með frammistöðu liðsins á mótinu.
„Mér fannst við standa okkur frábærlega hérna og við uxum í hverjum einasta leik og það er gríðarlega jákvætt, við sýndum hvað í okkur bjó og tókum tvo leiki gríðarlega sannfærandi og klúðrum fyrsta leik úr höndunum. Vorum 20 yfir en missum það niður og töpum svo á flautukörfu. Lykillinn að öllum sigrunum okkar var vörn númer 1,2,3 og þá náðum við að spila stílinn sem Íslendingar vilja spila, það er að stoppa í vörninni og hlaupa svo á andstæðingana þar sem við höfum ekki þessa stærð sem þeir hafa.“
Jón segir íslenska boltann vera að bæta sig töluvert þessi misserin:
„Við Íslendingar erum að bæta leik okkar gríðarlega eins og sést erum við komnir á Eurobasket í A-landsliðinu og oft voru þjóðirnar að taka fram úr okkur á árunum u-18 og u-20 en það er ekki lengur þannig. Eina sem við erum ennþá dálitið eftir á í er styrkleiki og sprengja sem þeir hafa yfir okkur en annars erum við góðir miðað við hinar Norðurlandarþjóðirnar. Það væri gaman að fara á EM og sjá hvar við sitjum þar í U-20 ára flokknum og þá sjáum við hvar við stöndum í Evrópu sem Ísland myndi bara hafa gott af og skemmtilegt fyrir okkur leikmennina að spila á móti þessum sterkustu í Evrópu.“



