Sigmundur Már Herbertsson einn okkar allra færasti dómari hefur fengið verðugt verkefni í sumar þegar hann heldur til Riga og dæmir í sterkum "Austur Evrópu" riðli á Eurobasket. Óhætt er að fullyrða að þetta er stærsta verkefnið sem Sigmundur tekur að sér og vissulega mikil viðurkenning á hans störf.
"Það leggst mjög vel í mig að fara til Riga í Lettlandi. Þetta er sterkur Austur- Evrópu riðill, Litháen, Lettland, Eistland, Úkraina, Tékkland og Belgía. Þarna er körfuknattleikur mjög hátt skrifaður og mikill áhugi. Það má búast við troðfullu húsi á leikjunum í þessum riðli og mikilli stemmingu. Leikirnir fara fram í Arena Riga sem tekur um 14.000 manns. " sagði Sigmundur í viðtali við Karfan.is nú í vikunni.
Sem fyrr segir er verkefnið gríðarlegt, stærstu nöfn Evrópu eru mætt að etja kappi á stærsta sviðinu, hefur Sigmundur engar áhyggjur eða yfirstígur tilhlökkun það?
"Þú spyrð um áhyggjur en það er aðallega tilhlökkun, og er ég að undirbúa mig eins vel og ég mögulega get. Formlegur undirbúningur minn fyrir mótið hófst 13. apríl og 1.- 3. september koma síðan allir dómararnir saman í Frankfurt á námskeið. Dómarahópurinn á Eurobasket samanstendur af 40 dómurum og verða 10 í hverjum riðli. Undirbúningur okkar er líkamlegur sem felst m.a. í sex þrekprófum fram að mótinu. Einnig vinnum við dómararnir saman í gegnum netið."
SVÖRUM PRÓFUM Á 10 DAGA FRESTI "Það mun einnig koma mér til góða öll sú vinna sem við dómarar hér á Íslandi höfum verið að vinna undanfarin ár. En við höfum verið í samstarfi við Zsolt Hartyani sem er commisioner og instructor hjá FIBA og hefur hann umsjón með ungverkskri dómarasíðu. Þar þurfum við að svara á 10 daga fresti yfir tímabilið prófum í mechanic, reglum og svo eru líka video test og video voting. Þetta er allt gert með það í huga að við bætum okkur sem dómarar og einnig að það verði samræmi í dómgæslu í Evrópu. Til gamans má geta að við höfum verið duglegir að klippa okkar leiki hér heima og hafa marga klippur úr okkar deildum verið notaðar á ungversku síðunni."
NÓG AÐ GERA FRAM AÐ EUROBASKET "Einnig verður nóg að gera í dómgæslu fram að Eurobasket. Smáþjóðaleikunum hér á landi er nýlokið og framundan eru ýmis verkefni. Mót í Austurríki með U- 18 karlalandsliðinu þar sem ég mun dæma níu leiki. Karlalandsliðið spilar tvo æfingaleiki við Hollendinga hér á landi í byrjun ágúst. Síðan fer ég með þeim á æfingamót í Eistlandi og Póllandi í ágúst. Frá Póllandi mun ég halda til Frankfurt á námskeiðið fyrir Eurobasket og þaðan til Riga."
Eurobasket er dreift á fjögur lönd líkt og flestir vita og þar sem Íslendingar eru í Þýskalandi þá átti Sigmundur auðvitað ekki möguleika á að lenda þar. En af þeim hinum þremur var þá einhver óska staður til að dæma á?
"Þegar maður hefur verið tilnefndur á Eurobasket þá skiptir engu hvar maður dæmir, þessir riðlar eru allir sterkir og áhugaverðir. Það er ekki sjálfgefið að vera tilnefndur þó að Ísland hafi unnið sér rétt til þátttöku. En ég veit að menn frá FIBA komu til að horfa á mig dæma í Svíþjóð sl. tímabil þannig að fylgst hefur verið með mér."
FJÖLSKYLDAN Í BERLÍN "Það verða blendnar tilfinningar í september þegar ég verð í Riga en restin af fjölskyldunni að fylgjast með Eurobakset í Berlin. En við fjölskyldan vorum búin að kaupa flug og miða á leikina. En eiginkonan fer með strákana og tæklar þetta, enda ýmsu vön þegar kemur að mér og dómgæslu."




