Íslenska karlalandsliðið hefur æfingar að nýju þann 20. júlí næstkomandi en liðið er í fríi eftir Smáþjóðaleikana. Ísland hafnaði í 2. sæti Smáþjóðaleikanna er liðið fékk skell gegn Svartfjallalandi. Craig Pedersen landsliðsþjálfari sagði það afar mikilvægt að hafa fengið jafn sterkan andstæðing og Svartfjallaland á mótinu.
„Smáþjóðaleikarnir voru mjög gott mót fyrir okkur, leikmennirnir fengu tækifæri til þess að leika saman á ný og við þjálfararnir gátum skoðað leikmenn sem við höfum ekki séð til í nokkurn tíma. Mikilvægast af öllu var þó að leika gegn jafn góðu liði og Svartfjallalandi sem komu upp um veikleika okkar,“ sagði Craig í samtali við Karfan.is.
„Við vitum þar af leiðandi hvaða vinna bíður okkar en mótið sýndi okkur einnig hvað var að ganga vel hjá okkur, við fengum helling út úr þessum þremur leikjum.“
Á Smáþjóðaleikunum voru sterkir leikmenn utan hópsins en þar má helst nefna Jón Arnór Stefánsson sem var önnum kafinn í úrslitakeppni ACB deildarinnar með Unicaja Malaga. Þá voru þeir heldur ekki með Haukur Helgi Pálsson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Pavel Ermolinskij vegna meiðsla. Þeir sem svo ekki voru valdir í Smáþjóðahópinn en æfðu áfram með liðinu voru Ólafur Ólafsson, Pétur Rúnar Birgisson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Mynd/ Bára Dröfn




