Karlalið Hauka er á leið í æfinga- og keppnisferð til Rómar á Ítalíu í ágústmánuði. Haukar sem féllu út í undanúrslitum Domino´s-deildarinnar á síðasta tímabili munu m.a. leika gegn sterkum bandarískum háskólum á borð við Georgetown.
Kjartan Freyr Ásmundsson formaður Hauka sagði verkefnið afar spennandi: „Eftir að okkur bauðst þátttaka í þessu verkefni var aldrei spurning um annað en að taka þátt. Hópurinn hefur undanfarið verið í alls kyns fjáröflunum til að standa undir kostnaði en um helgina er t.d. bílaþvottur hjá liðinu. Við hvetjum Hafnfirðinga til að taka vel á móti þeim og svo eiga vitaskuld allir að vera með kaggana glansandi svona að sumarlagi.“
Á meðal andstæðinga Hauka í æfinga- og keppnisferðinni er áðurnefndur Georgetown skólinn, Stoney Brook University og Marquette University. Liðið heldur utan þann 10. ágúst næstkomandi.
Mynd/ Axel Finnur – Kristinn Marinósson og félagar í Haukum eru á leið til Rómar í ágústmánuði.



