Undir lok maímánaðar greindum við frá því að körfuknattleikssamband Evrópu, FIBA Europe, hefði höfðað mál á hendur Euroleague vegna útistandandi skulda. Í umfjöllun okkar í maí kom m.a. fram í máli Hannesar S. Jónssonar formanns KKÍ að ljóst væri að breytinga yrði að vænta í klúbbakeppni Evrópukeppninnar á allra næstu árum.
FIBA Europe hefur þegar látið til skarar skríða en til að skýra málið eldsnöggt snýst þetta um nokkrar gerðir af Evrópukeppnum. Sterkasta keppnin heitir Euroleague og er í einkaeigu hjá fyrirtækinu Euroleague Baskeball Company. Því fyrirtæki stefndi FIBA Europe á dögunum.
Ef Euroleague er sterkasta keppnin í Evrópukeppni félagsliða þá er næststerkasta þrepið Evrópukeppni sem ber nafnið Eurocup og er líka á vegum Euroleague. Tilkynning sem barst frá FIBA Europe í gær miðar að því að breyta og bæta fyrirkomulagið á stigi Eurocup með annarri og nýrri keppni og takmarkið er að aðeins verði í framtíðinni tvær Evrópukeppnir félagsliða.
Vilji FIBA Europe til þess að hafa allar Evrópukeppnir félagsliða undir sínum hatti er mikill samkvæmt fullyrðingum Hannesar sem er stjórnarmaður hjá FIBA Europe og formaður KKÍ. Boðað hefur verið nýtt keppnisfyrirkomulag á stigi Eurocup en vera má að á komandi leiktíð verði um tvö næstefstustig að ræða í Evrópukeppni félagsliða. Veltur það allt á því hvernig starfsemi Euroleague Basketball Company verður háttað.
Á meðan ekki hefur verið greitt úr málum milli FIBA Europe og Euroleague Basketball Company boðar FIBA Europe nýja keppni á næstefsta stigi. Þar með er ekki loku fyrir það skotið að nokkur tímabil til viðbótar verði Euroleague Basketball Company áfram með keppni í Euroleague og Eurocup. Yfirgnæfandi líkur eru þó á því að flestir klúbbar muni vilja undir hatt FIBA Europe því það fyrirkomulag sem FIBA Europe boðar er nær því sem flestir þekkja úr knattspyrnunni. Þá er verið að tala um að fjárhagslegur ábati gæti orðið af því að komast upp úr hverri umferð og inn í riðlakeppnirnar.
Augljósasta spurningin sem blasir við héðan frá Íslandi er: „Munu íslensk lið geta tekið þátt í þessum Evrópukeppnum félagsliða, verður það loksins hægt á fjárhagslegum forsendum og jafnvel framtíðar tekjupóstur? Hannes S. Jónsson formaður KKÍ segir svo vera en hann ítrekaði í máli sínu við Karfan.is í gær að líkast til tæki nokkur ár að fullmóta fyrirkomulagið.
Í tilkynningunni frá FIBA Europe segir að meginmarkmiðið sé að draga úr þátttökukostnaði fyrir liðin og tryggja frammistöðubónusa fyrir lið sem komast áfram á hverju stigi. Evrópukeppni félagsliða á þessu næststerkasta sviði keppninnar mun hefjast strax á næstu leiktíð og gert er ráð fyrir um 100 liðum frá 40 löndum. Eins og staðan er í dag er landslagið svipað fyrir íslensk lið, þ.e. að taka þátt er einfaldlega of kostnaðarsamt jafnvel þó nýtt fyrirkomulag verði við lýði á komandi tímabili. Hannes sagði þó engu að síður að möguleikar íslenskra liða til að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða væru að stóraukast í náinni framtíð.
Tengt efni: FIBA Europe í mál við Euroleague



