spot_img
HomeFréttirKristófer: Stingur að geta ekki verið partur af þessum kjarna

Kristófer: Stingur að geta ekki verið partur af þessum kjarna

Kristófer Acox verður ekki inni í myndinni þegar kemur að EuroBasket í Berlín í september. Kristófer er náms- og íþróttamaður við Furman háskólann í Bandaríkjunum og sagði við Karfan.is að honum fyndist það virkilega leiðinlegt að geta ekki gefið kost á sér í verkefnið. Kristófer small eins og flís við rass í A-landsliðinu á Smáþjóðaleikunum og skilaði sterkum tölum en landsliðið mun þurfa að bíða um sinn eftir hans starfskröftum þar sem skólinn gefur ekki grænt ljós á þátttöku hans í verkefninu.

„Þetta hittir illa á upp á námið og það væri alltof erfitt að missa út 2-3 vikur af námi. Þeir vilja líka halda mér til að koma í veg fyrir að ég dragist þar aftur úr og nái þ.a.l. ekki að útskrifast á réttum tíma,“ sagði Kristófer við Karfan.is en eins er mót sem liðið heldur á í ágústbyrjun sem fram fer á Kosta Ríka.

„Vegna verkefnisins á  Kosta Ríka myndi ég ekkert ná að æfa með landsliðinu í ágúst og hvað afstöðu skólans og þjálfaranna varðar þá skil ég hana. Skólinn vill halda mér hraustum enda hef ég verið óheppinn með meiðsli síðan ég byrjaði hérna. Ef eitthvað skyldi koma fyrir með landsliðinu þá væri virkilega leiðinlegt að halda inn í tímabilið meiddur hjá Furman.“

Kristófer og félagar vöktu athygli á síðustu leiktíð með því að ná inn í úrslitaleik Southern Conference riðilsins þar sem liðið tapaði 67-64 í svakalegum slag gegn Wofford um að komast í úrslit NCAA háskólaboltans. Wofford komst í 64 liða úrslitin og tapaði þar í fyrstu umferð gegn Arkansas háskólanum 56-53. „Eftir síðasta tímabil og velgengnina í lokamóti SoCon þá beinast allra augu að okkur á næsta tímabili.“

Staðan er því ekki einföld hjá kappanum sem er miður sín yfir því að geta ekki gefið kost á sér í A-landsliðið þetta sumarið. „Mér finnst ég vera að missa af stóru tækifæri og stórum part í sögu íslensks körfubolta þannig að það stingur að geta ekki verið partur af þessum kjarna sem fer til Þýskalands að taka þátt í þessu risamóti. En það er ástæða fyrir öllu svo ég þarf bara að sætta mig við þetta og halda áfram að bæta mig hérna úti fyrir framhaldið.“

Mynd/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -