spot_img
HomeFréttirUpprifjun Eurobasket - Ítalía

Upprifjun Eurobasket – Ítalía

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga hefur verið ansi duglegur að rifja upp úr sögu Eurobasket og hefur verið að setja inn ansi skemmtilega pistla á Facebook síðu "Ísland á Eurobasket"  Með góðfúslegu leyfi fáum við að birta þessa pistla hér a Karfan.is og byrjum á pistli um lið Ítalíu og þeirra framgöngu á Eurobasket. 

 

Örlítil upprifjun úr sögu Eurobasket – Ítalía

Ítalía hafði verið að nálgast toppinn óðfluga þegar það loks náði þeim stóra áfanga að verða Evrópumeistari árið 1999 þegar mótið fór fram í Frakklandi. Ítalía hafði lent í öðru sæti á heimavelli í Róm árið 1991 og aftur 1997 á Spáni. Andstæðingur Ítala í báðum úrslitaleikjum var Júgóslavía. Þjálfari Ítalíu 1997 var Ettore Messina, núverandi aðstoðarþjálfari San Antonio Spurs, en hann kom m.a. tvívegis til Íslands á þessum árum til að halda þjálfaranámskeið.

Lið frá Ítalíu voru atkvæðamikil á árum áður, Bologna liðin bæði voru ávallt með frábær lið, Benetton Treviso sem og Roma. Ginobili leikmaður San Antonio Spurs lék m.a. með Kinder Bologna sem varð Evrópumeistari meistaraliða 2001 og var Ginoboli MVP í Euroleague það árið. Á þessum árum var ítalska deildin talin sú næst sterkasta í heimi á eftir NBA. Síðan þá hafa deildir eins og sú gríska og í dag sú spænska tekið við því kefli.

Hápunktur landsliðs Ítalíu:

Ítalía vann Spán í úrslitaleiknum 1999 og voru bestu leikmenn þá Carlton Myers og Gregor Fucka. Þjálfari Ítala á þessu móti var enginn annar en Bogdan Tanjevic. Það má sannarlega segja að þetta hafi verið toppurinn hjá landsliðinu.

Upp úr 2008 tók liðið smá dýfu og náði m.a ekki að komast í lokakeppnina sem fór fram í Póllandi árið 2009. Það þótti afar neikvætt heima fyrir enda var liðið með marga snjalla leikmenn innanborðs. Eftir að Simone Pianigiani tók við liðinu eftir keppnina í Póllandi hefur það verið að bæta sinn leik jafnt og þétt. Pianigiani hafði þá verið afar sigursæll á Ítalíu og búið til nánast ósigrandi lið Montepaschi Siena sem vann deildina sex ár í röð eða frá 2007-2012.

Helstu leikmenn Ítala í dag eru NBA stjörnurnar Andrea Bargnani, Marco Belinelli og Daniel Gallinari ásamt leikmönnum eins og Alessandro Gentile, Luigi Datome svo einhverjir séu nefndir. Í dag er nokkur von hjá stuðningsmönnum liðsins að það geti blandað sér í baráttuna um titilinn eða í það minnsta tryggt sig inn á HM og Ólympíuleika.

Það verður gaman að sjá okkar drengi kljást við þetta sterka ítalska lið.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -