spot_img
HomeFréttirUpprifjun Eurobasket - Serbía/Júgóslavía

Upprifjun Eurobasket – Serbía/Júgóslavía

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga hefur verið ansi duglegur að rifja upp úr sögu Eurobasket og hefur verið að setja inn ansi skemmtilega pistla á Facebook síðu "Ísland á Eurobasket"  Með góðfúslegu leyfi fáum við að birta þessa pistla hér a Karfan.is og er nú komið að Júgóslövum (Serbum) og þeirra framgöngu á Eurobasket. 

 

Horft til baka um öxl – Serbía ( Júgóslavía )

Serbía er stóri bróðirinn í hópi allra fyrrum ríkja Júgóslavíu. Það var árið 1973 sem Júgóslavía varð fyrst Evrópumeistari og eftir það var liðið á toppnum meira og minna næstu áratugina. Júgóslavía tók við keflinu af Sovétríkjunum sem höfðu nánast einokað titilinn frá 1947 til ársins 1971.

Júgóslavía hefur framleitt leikmenn og þjálfara á færibandi boltans í gegnum tíðina. Í gegnum tíðina hefur það verið æði algengt að þjálfarar frá ríkjum Júgóslavía hafi verið við stjórnvölinn hjá þeim liðum, hvaðan sem er frá Evrópu, er hafa staðið uppi sem sigurvegarar í Evrópukeppnum félagsliða sem og landsliða. Sem dæmi má nefna Limoges frá Frakklandi sem varð Evrópumeistari meistaraliða árið 1993. Þjálfari liðsins á þeim tíma var Bozidar Maljkovic. Tók þetta dæmi þar sem félagslið frá Frakklandi hafa sjaldan verið á meðal þeirra allra bestu á hæsta stigi Evrópukeppni félagsliða.

Hápunktarnir eru svo margir hjá landsliðum Serbíu/Júgóslavíu að nánast ómögulegt er að taka eitthvað sérstaklega út. Fyrir valinu varð stundin þegar Júgóslavía tryggði sér titilinn eftir úrslitaleik gegn Litháen í Aþenu 1995.

Þegar þarna var komið við sögu höfðu tvö fyrrum stórveldi, Júgóslavía og Sovétríkin, skipst upp í nokkur lönd og því var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir Eurobasket 1995 í Grikklandi. Það fór svo á endanum, eftir mikinn drama og mikil læti þar sem yfirstjórn FIBA, helstu embættismenn komu frá Júgóslavíu, var sökuð um að hafa áhrif á framgöngu og frammistöðu Júgóslava á vellinum, dómarar á mótinu voru hreinlega ásakaðir um að dæma með liðinu.

Undirritaður var á staðnum og getur vitnað um að andrúmsloftið í þessari lokakeppni var rafmagnað og er eiginlega vægt til orða tekið því til viðbótar þessum áskökunum mátti finna pólitíkina svífa yfir og birtist það með ýmsum hætti. Meira um það síðar.

Úrslitaleikur á Eurobasket 1995:

Leikur tveggja stórkostlegra liða, valinn leikmaður í hverri stöðu, NBA leikmenn og aðrir þeir bestu í Evrópu.

Þegar skammt var leiksloka í úrslitaleiknum og dæmd hafði verið tæknivilla á Litháen yfirgáfu leikmenn liðsins völlinn og neituðu að klára leikinn. Sem betur fór ákváðu leikmenn að fara inn á völlinn því ekki mátti miklu muna að upp úr syði á pöllunum en til einhverra átaka komu sem lögreglan og herlögreglan þurftu að skerast í leikinn með. Í myndbandinu sést þegar Aleksandar Djordjevic og Vlade Divac eru að reyna að tala um fyrir Sarunas Marciulionis og félögum hans, hvetja þá til að klára leikinn. Djordjevic er þjálfari Serbíu í dag en kappinn setti af stað skotsýningu í þessum úrslitaleik, hann skoraði 41 stig og af því voru 10 þriggja stiga körfur.

Aðrir leikmenn Júgóslavíu á þessu móti voru Dejan Bodiroga, fyrrum samherji Jóns Arnórs hjá Roma, Zoran Zavic og Predrag Danilovic sem lék m.a. með Miami Heat á árum áður. Þjálfari liðsins var Dusan Ivkovic og aðstoðarþjálfari var Zeljko Obradovic sem er sennilega sigursælasti félagsliðaþjálfari í sögu Evrópukeppna. Var lengstum hjá Panathinaikos í Grikklandi. Í verðlaunaafhendingunni má sjá Obradovic eiga samskipti við Sabonis leikmann Litháa en þeir félagar voru saman hjá Real Madrid á þessum tíma og höfðu þeir unnið Euroleague saman nokkrum mánuðum fyrr. Tengingar voru víða þarna.

Það er líka eftirminnilegt fyrir saklausan Íslendinginn í stúkunni að horfa upp á það í verðlaunaafhendingunni þegar Króatar, sem höfðu unnið til bronsverðlauna, stukku af pallinum í þann mund er nafn Júgóslavíu var kallað upp í hátalarakerfinu sem sigurvegari mótsins. Hópur Króata labbaði af velli og voru ekki í salnum þegar „ óvinurinn “ tók við gullverðlaunum sínum. Það má sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=wzO8pFNk4Eg

Í báðum liðum voru leikmenn sem ólust upp saman í yngri landsliðum Júgóslavíu en þarna var ástandið þannig að enginn vinskapur var með mönnum. Ég hafði hitt Aleksandar Petrovic þjálfara króatíska landsliðsins, eldri bróðir Drazen, á mótinu, en við kynntumst þegar hann kom sem aðstoðarþjálfari til Njarðvíkur nokkrum árum fyrr með Cibona Zagreb en liðin áttust við í Evrópukeppninni. Hann sagði mér sittlítið af hverju um reglur liðsins og þar á meðal að leikmönnum og þjálfarateymi var meinað að hafa nokkur samskipti við landslið Júgóslavíu.

Þetta mót verður lengi í minnum haft.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -